154. löggjafarþing — 10. fundur,  28. sept. 2023.

Mannréttindastofnun Íslands.

239. mál
[12:56]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Nú er ég ekki flutningsmaður þessa frumvarps en eins og ég skil það er verið að færa réttindagæslu fatlaðs fólks, þ.e. réttindagæslumennina sem eru í nokkrum landshlutum, úr ráðuneyti og yfir í þessa sjálfstæðu stofnun og þar með gefa þeim aukið sjálfstæði og getu til að vinna sína vinnu, sem er mjög mikilvæg réttindagæsla fyrir fatlað fólk.

Það sem ég var að benda á í minni ræðu er að mér fyndist rétt að svokallaðir persónulegir talsmenn fatlaðs fólks, hverra hlutverk er skilgreint í lögum um réttindagæslu fyrir fatlað fólk, ættu líka heima undir þessari stofnun og fengju greitt fyrir sína vinnu, því að eins og staðan er núna er þetta í raun samningur um ákveðið sjálfboðaliðastarf fyrir fatlaðan einstakling. Það sem ég var að benda á er að ef þetta er sjálfboðaliðastarf þá er þetta ekki aðgengilegt öllum, vegna þess að það eru ekki allir sem hafa umkringt sig þannig að þeir geti leitað til einhvers til að taka að sér þetta mikilvæga hlutverk. Ég nefni þetta í tengslum við sjálfræðis- og lögræðissviptingar vegna þess að þetta er vægara úrræði heldur en það, sem lögum samkvæmt á að reyna að notast við áður en gripið er til miklu harkalegri úrræða eins og sjálfræðis- og lögræðissviptingar þar sem rétturinn til að taka ákvarðanir er tekinn af þér.

Persónulegir talsmenn fatlaðs fólks eiga að aðstoða fólk við að ná fram sínum besta vilja. Þeir eiga að vera því til stuðnings í samfélaginu við að taka ákvarðanir, við að ákveða hvaða samninga það vill undirgangast, við að taka kannski flóknar og erfiðar ákvarðanir í lífinu sem getur verið erfitt að taka og sumir þurfa aðstoð við. Mér fyndist rétt að þetta hlutverk væri betur skilgreint, hefði sterkari sess og væri aðgengilegt fyrir alla. Ég tel að það væri meira í samræmi við okkar skuldbindingar gagnvart samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks en núverandi réttarstaða þar sem þetta er ekki launað.