154. löggjafarþing — 10. fundur,  28. sept. 2023.

Mannréttindastofnun Íslands.

239. mál
[13:01]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að lýsa mig ósammála hv. þingmanni um að þetta mál eigi ekki heima í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd vegna þess að það sé ekki búið að ákveða hvernig þetta eigi að vera. Það liggur fyrir í frumvarpinu hver tillagan er. Tillagan er að búa til nýja stofnun Alþingis. Það er tillagan sem er til umræðu. Ef við síðan sem stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd segjum að okkur finnst ekki að þessi stofnun eigi að vera stofnun Alþingis heldur einhver annars konar stofnun, þá getum við tekið umræðuna út frá því. En frumvarpið eins og það liggur fyrir er tillaga um að sett verði á fót ný stofnun innan Alþingis og þá er auðvitað rétt að sú nefnd sem fer með slíkt, eins og kemur fram í 13. gr. þingskapa — sem ég var einmitt með opna fyrir framan mig í dag út af atkvæðagreiðslu sem var fyrr í dag um aðra nefnd sem gerður var ágreiningur um — þar segir einmitt að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd fjalli um Alþingi og stofnanir þess og hér er verið að leggja til að búa til heila nýja stofnun Alþingis. Þannig að ég held að það sé alveg rétt að þetta fari til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar.