154. löggjafarþing — 10. fundur,  28. sept. 2023.

kosningalög.

6. mál
[17:45]
Horfa

Flm. (Sigmar Guðmundsson) (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni fyrir ræðuna og áhugavert að heyra það sem þingmaðurinn fór hérna yfir. Ég ætla að lýsa því yfir hérna sömuleiðis að ég hygg að það hefði verið ansi erfitt að mynda ríkisstjórn þessara þriggja flokka með eins manns meiri hluta. Ég er ekki viss um að menn hefðu verið neitt sérstaklega æstir í þá vegferð. Engu að síður hefði það þó a.m.k. verið meiri hluti. Ég ætla hins vegar að nefna þessa ríkisstjórn sem minn flokkur sat í um nokkurra mánaða skeið, ríkisstjórn Bjartrar framtíðar, Viðreisnar og Sjálfstæðisflokksins. Auðvitað er þetta viðkvæmt eins og hv. þingmaður var að fara yfir með hverjir setjast á þing fyrir flokkana og ekki. Við þekkjum þá umræðu náttúrlega mjög vel úr Borgarnesmálunum öllum sem komu upp eftir síðustu kosningar og jöfnunarhringekjan fór af stað og allt það, þekkjum það mætavel. Þetta er viðkvæmt og eðlilegt að menn vilji standa vörð um sín réttindi í því.

Hitt er síðan annað að þegar við erum með kosningakerfi sem beinlínis leiðir til þess að það sé hægt að mynda ríkisstjórn sem ekki hefði annars verið hægt að mynda — það fengu sem sagt þrír flokkar, minn flokkur þar á meðal, að stýra landinu hér í tæpt ár án þess að það sé hægt að réttlæta það með neinum sanngirnisrökum vegna þess að þarna var vægið milli flokkanna ekki rétt. Mig langaði bara að spyrja hv. þingmann um það. Þessi talnaleikfimi, þegar þetta í sjálfu sér skiptir ekki neinu máli, fer svolítið niður fyrir radarinn, en þegar þetta farið að snúast raunverulega um það hverjir hafa umboð til þess að stjórna saman landinu þá hlýtur það að árétta svolítið sterkt fyrir okkur að við verðum að breyta þessu þannig að við getum a.m.k. gengið úr skugga um að það sé eðlilegt umboð sem viðkomandi ríkisstjórn hafi til að stjórna landinu.