154. löggjafarþing — 11. fundur,  9. okt. 2023.

rannsóknarskýrsla um heimilin vegna bankahrunsins.

[15:36]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Það er alveg hárrétt sem hv. þm. Ásthildur Lóa Þórsdóttir nefnir hér. Það eru mörg í þessum sal sem voru hér í þessum sal í hruninu og ég er ein þeirra. Ég tel raunar, og ætla bara að fá að segja það hér, að við sem samfélag höfum unnið ágætlega út úr þessum erfiðu atburðum. Hér var unnin gríðarlega umfangsmikil rannsóknarskýrsla Alþingis þar sem farið var yfir alla þá þætti sem höfðu áhrif og skiptu máli í aðdraganda hrunsins. En ekki nóg með það, eins og kom fram í skýrslu sem ég lagði fyrir þingið í hittiðfyrra að beiðni hv. þingmanns Pírata, og fleiri með honum en frumkvæðið átti hv. þm. Björn Leví Gunnarsson, þar sem ég var beðin um að gera grein fyrir hvernig unnið hefði verið úr öllum þeim ábendingum sem komu fram í rannsóknarskýrslu Alþingis, heldur kom það sjálfri mér á óvart, þótt ég hefði verið hér allan þennan tíma, hversu mikið hafði verið gert, hversu mikið hafði verið gert af ólíkum ríkisstjórnum, bæði þeirri sem tók við eftir hrun, og ég sat sjálf í, en líka þeirri ríkisstjórn sem sat í hruninu, þeirri ríkisstjórn sem kom á eftir þeirri sem ég sat í og þeirri ríkisstjórn sem nú situr.

Fjármálakerfið á Íslandi er sem betur fer ekki undir sama regluverki nú og það var þá. Það er mjög margt sem hefur verið gert til bóta þegar kemur að til að mynda stöðu fólksins í landinu, hvort sem það eru leigjendur eða eigendur. Kannski birtist það í því að við stöndum núna að sjálfsögðu ekki frammi fyrir hruni en vissulega efnahagslegum örðugleikum en við sjáum allt aðra stöðu á íslenskum heimilum nú og ekki á neinn hátt sambærilega við það sem hér var í kringum hrun.

Hv. þingmaður spyr hvort ég telji nóg að gert við að gera upp hrunið. Ég tel að Alþingi Íslendinga, allir flokkar, hafi staðið sig ansi hreint vel í því, bæði að láta vinna rannsóknarskýrsluna á sínum tíma en líka allt það sem á eftir kom til að bregðast við öllum þeim ábendingum sem þar komu fram.