154. löggjafarþing — 11. fundur,  9. okt. 2023.

framkvæmd samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins.

[15:53]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Það er dálítið ódýrt að halda því fram að það séu vanáætlanir í samgönguáætlun. Samkvæmt þeirri sem nú kemur fram eru t.d. fimm stig hönnunar. Það birtist í samgönguáætluninni. Á fyrsta stiginu, á skilgreiningarstiginu, sem eru þá þær framkvæmdir sem verða framkvæmdar eftir tíu eða 15 ár, er allt að 70% óvissa. Hún er tilgreind og þingmenn geta kynnt sér hana. Síðan fer hún smátt og smátt minnkandi eftir því sem lengra líður á hönnunarferlið og menn vita nákvæmlega hvað þeir eru að fara að gera. Það sem var með samgöngusáttmálann var að hann var fyrst og fremst stórar hugmyndir. Þær hugmyndir sem hafa stækkað hvað mest eru svokallaðir stokkar; svokallaður Sæbrautarstokkur, svokallaður Garðabæjarstokkur, hugmyndir um jarðgöng í Hafnarfirði og eitthvað slíkt, sem eru þær framkvæmdir sem hafa langsamlega mest vaxið að verðlagi. Allt hefur hins vegar vaxið um 30% því að samgönguvísitalan hefur gert það.

Ég vil halda því fram, og það eru til skýrslur um það, (Forseti hringir.) að áætlanir Vegagerðarinnar séu býsna góðar miðað við aðrar áætlanir okkar Íslendinga. Og þær eru orðnar miklu betri í dag en þær voru fyrir nokkrum árum.