154. löggjafarþing — 11. fundur,  9. okt. 2023.

Ráðstöfun söluágóða af ríkiseignum til fjárfestinga í mikilvægum innviðum.

[16:32]
Horfa

Jakob Frímann Magnússon (Flf):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé ágætishugmynd að selja eitthvað af þeim ríkiseignum sem ekki eru hér nýttar sem skyldi. Það blasir við okkur fagnaðarefni sem er hækkaður lífaldur Íslendinga. Það má þakka heilbrigðiskerfi, einkum fyrri ára, þá staðreynd að menn ætla að lifa lengur en forfeðurnir að meðaltali. Það blasir við að við þyrftum að vera að byggja sirka 200 ný rými á hverju ári fyrir þá sem þurfa umönnun og hjúkrun. Það er sjálfsagður gangur lífsins, rétt eins og þeir þurfa umönnun og stoðkerfi sem eru að fæðast í heiminn. Ég held að flestir viti dæmi um það úr sínu nærumhverfi að það er margra mánaða ef ekki ára bið eftir slíkum rýmum. Ég ætla ekki að leyfa mér að smætta umræðuna eða hugmyndina sem ég held að sé í sjálfu sér góð. Seljum byggingar sem við erum ekki að nýta eða þurfum ekki nauðsynlega á að halda en leigjum út í eitthvað sem við teljum ekki vera eins brýnt og það að hlúa að þeim sem eru á biðlistum í mikilli þörf fyrir aðhlynningu og heimahjúkrun af einhverjum toga og styttum þessa biðlista, nýtum eignir ríkisins, seljum þær eftir atvikum og kaupum þá í staðinn eitthvað sem við þurfum nauðsynlega á að halda núna strax. Það er mitt innlegg í þessa umræðu. Að öðru leyti ætla ég ekki að fara að tala um hægri og vinstri. Í mínum huga eigum við að horfa á áfram versus aftur á bak og sameinast um að halda áfram.