154. löggjafarþing — 11. fundur,  9. okt. 2023.

Miðstöð menntunar og skólaþjónustu.

238. mál
[17:04]
Horfa

mennta- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Rökin eru einfaldlega þau, eins og ég rakti í fyrra andsvari og í framsöguræðu minni, að það er mat, ekki bara ráðuneytisins heldur þeirra aðila sem hafa komið að vinnslu þessa máls, bæði innan hagsmunasamtaka kennara, innan hagsmunasamtaka sveitarfélaga og í fjölda skýrslna sem hafa verið lagðar fram, að það sé enginn aðili með þjónustuhlutverk skilgreint í dag. Menntamálastofnun er í grunninn stjórnsýslustofnun en ekki þjónustustofnun. Við teljum að út frá m.a. menntastefnunni og þeirri aðgerð þar sem er að setja upp heildstæða skólaþjónustu og auka þjónustu við menntakerfið, sé niðurstaðan sú að mikilvægt sé að setja upp sérstaka þjónustustofnun. Með því að gera það þá er bara eðli stofnunarinnar allt annað. Menntamálastofnun er í dag stjórnsýslustofnun sem er samkvæmt lögum skilgreind sem stjórnsýslustofnun — af því að þingmaðurinn hristir hausinn — (Gripið fram í.)sem hefur verið að taka að sér einstaka þjónustuhlutverk, það er rétt, eins og lestrarátakið og fleira. Það er niðurstaða okkar sem höfum unnið að þessu, að það sé mikilvægt að koma upp slíkri þjónustustofnun og það er niðurstaða okkar líka að breytingarnar séu það miklar að það sé skynsamlegt, og ekki bara skynsamlegt heldur nauðsynlegt, að hún sé stofnuð frá grunni með þeim hætti sem hér er gert. Mig og hv. þingmann getur deilt á um það. Það er mögulegt við vinnslu málsins í nefndinni að fara ofan í þær greiningar sem hafa verið unnar í ráðuneytinu og það erum við tilbúin til að vinna og gera með nefndinni.