154. löggjafarþing — 11. fundur,  9. okt. 2023.

Miðstöð menntunar og skólaþjónustu.

238. mál
[17:08]
Horfa

mennta- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta andsvar. Áður en ég fer út í umfjöllun um frumkvæði og sköpun í skólakerfinu þá vil ég segja að þegar sagt er að þessi lög séu keimlík núverandi stofnun þá er ég alls ekki sammála því vegna þess að hér erum við í rauninni að fjalla um að byggja upp þjónustustofnun en ekki stjórnsýslustofnun. Eðli máls samkvæmt fjallar þetta um sama málaflokkinn sem eru menntamálin. Við erum að tala um málaflokkana sem þarna eru undir en eru í grunninn algerlega eðlisólíkar stofnanir.

Síðan vil ég segja að það sem snýr að því að efla frumkvæðið eða sköpun hjá grunnskólabörnum eða bara nemendum almennt í leik-, grunn- og framhaldsskóla er gríðarlega mikilvægt. Hlutverk þessarar nýju stofnunar á m.a. að vera það að þjónusta skólakerfið við að ráðast í ákveðnar breytingar. Það er mjög víða unnið frábært starf í menntamálum. Þegar kemur m.a. að frumkvæði og sköpun hjá grunnskólabörnum í einstaka bekkjum, hjá einstaka kennurum, hjá einstaka skólum, hjá einstaka sveitarfélögum er unnið algerlega frábært starf en það þarf aðila í skólakerfið sem m.a. hefur það hlutverk og verkefni að þjónusta og aðstoða aðra skóla, önnur svæði við að taka upp slíka vinnuhætti, miðla því sem vel gengur, takast á við áskoranir þegar kemur að innleiðingu. Í mínum huga erum við dálítið upptekin af því þegar við erum að tala um menntamál hvað stendur í námskránni okkar en síðan erum við ekki eins upptekin af því að aðstoða skólana við að innleiða síðan námskrárnar og þær áherslur sem við setjum hverju sinni. Það á m.a. að vera verkefni þessarar nýju stofnunar, (Forseti hringir.) þ.e. að þjónusta aðilana við að ná því fram. Frumkvæði og sköpun eru eitt þessara verkefna og ég held (Forseti hringir.) að svona stofnun, með þessari uppbyggingu, sé algerlega lykillinn að því að ná fram slíkum breytingum.