154. löggjafarþing — 11. fundur,  9. okt. 2023.

Miðstöð menntunar og skólaþjónustu.

238. mál
[17:11]
Horfa

Indriði Ingi Stefánsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Það kann að vera að okkur greini á um eðli stofnunarinnar en það er kannski ekki stóra málið. Það sem ég er kannski að velta því fyrir mér er hvort það ætti ekki að vera sérstakt markmið stofnunarinnar að stuðla að frumkvæði og sköpun hjá nemendum því að það er eitthvað það verðmætasta sem við gætum gefið nemendum á öllum skólastigum, að efla sköpun og frumkvæði. Svo ítreka ég að ég myndi vilja heyra hvort það þurfi ekki jafnframt, ef það á að fara í svona mikla endurskoðun, sem okkur greinir kannski á um hver sé, að fara líka í endurskoðun og greiningu á því hver sé tilgangurinn og hvert sé markmiðið með þeim fögum sem verið er að kenna, því að það er ekki alltaf alveg ljóst. Maður veltir fyrir sér með öll þessi fög sem er verið að kenna, hvert eðli þeirra er. Hvaða hæfileikar og eiginleikar eru það sem við erum að efla og styrkja í nemendum, á öllum skólastigum vissulega, með því að kenna viðkomandi fög? Það hlýtur að vera eitthvað sem þarf að hafa alltaf í huga vegna þess að tími okkar er dýrmætur, tími barnanna er það líka. Þannig að það er eins gott að þegar við erum að taka tíma barnanna í að læra eitthvað að við vitum yfir höfuð af hverju við erum að því.. Hvaða tilgangi þjónar það að kenna ákveðin fög og hvernig getur þessi stofnun styrkt frumkvæði og sköpun hjá nemendum?