154. löggjafarþing — 11. fundur,  9. okt. 2023.

breyting á ýmsum lögum í þágu barna.

240. mál
[17:26]
Horfa

mennta- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Á síðasta löggjafarþingi lagði ég fram frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum í þágu barna (samþætting þjónustu o.fl.). Með frumvarpinu var lagt til að samræma ákvæði laga á málefnasviði mennta- og barnamálaráðuneytis við ákvæði laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna, sem samþykkt voru undir lok 151. löggjafarþings og tóku gildi í ársbyrjun 2022. Ekki náðist að afgreiða frumvarpið fyrir þinglok og er það lagt fram að nýju í óbreyttri mynd.

Virðulegur forseti. Lög um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna fela í sér grundvallarbreytingar á umgjörð samvinnu þeirra sem veita börnum og barnafjölskyldum þjónustu og eru afrakstur heildstæðrar vinnu sem hófst árið 2018. Með lögum um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna var í fyrsta skipti hér á landi lögfest skýr umgjörð sem er til þess fallin að tryggja að börn og foreldrar sem á þurfa að halda hafi aðgang að samþættri þjónustu ólíkra þjónustukerfa án hindrana. Þá miða lögin að því að skapa skilyrði til að unnt sé að bregðast við tilteknum aðstæðum eða erfiðleikum í lífi barns með viðeigandi stuðningi um leið og þörf krefur. Lögin leysa ekki af hólmi gildandi lög um einstaka þjónustuþætti og lá fyrir við samþykkt þeirra að mikilvægt væri að endurskoða ákvæði annarrar löggjafar þar sem fjallað er um þjónustu í þágu barna, með sama markmið að leiðarljósi. Frumvarp það sem ég mæli fyrir hér í dag er mikilvægur liður í þeirri vinnu.

Að auki miðar frumvarpið að því að auka vægi réttinda barna og tryggja betra samræmi þeirra lagabálka sem um ræðir við ákvæði samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins sem lögfestur var hér á landi með lögum nr. 19/2013.

Undir málefnasvið mennta- og barnamálaráðuneytis fellur mikilvæg þjónusta sem veitt er á vegum ýmissa aðila í leik-, grunn- og framhaldsskólum, frístundaheimilum, félagsmiðstöðvum og á vettvangi íþrótta- og æskulýðsstarfs. Um þessa starfsemi gilda nokkrir mismunandi lagabálkar og er markmiðið með frumvarpinu að endurskoða ákvæði þeirra í því skyni að tryggja aukið samræmi sem og að árétta skyldur og ábyrgð þeirra aðila sem koma að því að veita börnum og fjölskyldum þeirra þjónustu. Það er einnig í samræmi við atriði sem fram komu á nýafstöðnu farsældarþingi sem hátt í 1.100 manns tóku þátt í þar sem fram fór víðtækt samtal fagfólks, þjónustuveitenda, stjórnvalda, barna og aðstandenda um farsæld barna, en þingið er mikilvægur liður í stefnumótun og áætlanagerð í innleiðingu laganna um farsæld barna.

Með frumvarpinu er lagt til að gerðar verði breytingar á fimm lagabálkum á málefnasviði mennta- og barnamálaráðuneytis, nánar tiltekið lögum um leikskóla, lögum um grunnskóla, lögum um framhaldsskóla, íþróttalögum, og æskulýðslögum.

Meginefni frumvarpsins má skipta í eftirfarandi þætti:

Í fyrsta lagi eru með frumvarpinu lagðar til nauðsynlegar breytingar sem miða að því að samræma hugtakanotkun.

Í öðru lagi eru lagðar til breytingar sem lúta sérstaklega að stefnumótun og áætlanagerð. Í lögum um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna er lögð rík áhersla á heildstæða stefnumótun þegar kemur að málefnum barna, einkum er lýtur að þjónustu. Í þeim lögum sem lagt er til að gerðar verði breytingar á með frumvarpi þessu er að finna fjölmörg ákvæði um stefnumótun. Mikilvægt er að við þá stefnumótun og almenna áætlanagerð sem tengist þjónustu í þágu farsældar barna sé litið til þess að tryggja aukna samfellu þvert á þjónustukerfi og málefnasvið með heildarsýn og sameiginleg markmið að leiðarljósi. Með frumvarpinu eru einnig lagðar til breytingar sem hafa það að markmiði að tryggja aukna aðkomu barna og nemenda að stefnumótun í samræmi við ákvæði samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins og tilmæli barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna til íslenskra stjórnvalda þar að lútandi.

Í þriðja lagi felur frumvarpið í sér ákveðnar breytingar sem miða að því að tryggja snemmtækan stuðning. Skólakerfið sem og íþrótta- og æskulýðsvettvangurinn gegna lykilhlutverki þegar kemur að því að efla þjónustu í þágu barna og bjóða viðeigandi stuðning um leið og þörf krefur og er mikilvægt að sú löggjöf sem um þá starfsemi gildir sé í fullu samræmi við lög um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna.

Í fjórða lagi eru með frumvarpinu lagðar til breytingar er lúta að skyldum þeirra aðila sem veita þjónustu í þágu barna og í fimmta lagi eru lagðar til breytingar sem miða að því að skýra hlutverk tengiliða, málstjóra og stuðningsteyma og tengsl starfa þessara aðila við störf starfsfólks annarra þjónustukerfa á málefnasviði ráðuneytisins. Með lögum um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna er lögð ákveðin skylda á tengiliði og málstjóra þjónustu í þágu farsældar barna, þ.m.t. til að veita foreldrum og börnum leiðsögn um þjónustu sem er í boði, aðstoð við að fá aðgang að tiltekinni þjónustu og upplýsingar um skipulag hennar. Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar í því skyni að tryggja aðkomu þessara aðila á viðeigandi stöðum.

Í sjötta og síðasta lagi eru lagðar til breytingar sem miða að því að samræma ákvæði laganna við ákvæði samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins. Er þar einkum litið til ákvæðis 12. gr. sáttmálans um þátttöku barna. Miða þær breytingar sem lagðar eru til með frumvarpi þessu sérstaklega að því að auka aðkomu og vægi þátttöku barna við stefnumótun, líkt og ég fór yfir hér áðan.

Virðulegi forseti. Frumvarp þetta er liður í heildarendurskoðun á þjónustu í þágu farsældar barna og varðar hagsmuni barna og fjölskyldna þeirra í víðu samhengi. Flest börn verja stærstum hluta úr sínum degi innan skólakerfisins. Mikilvægt er að lög um leik-, grunn- og framhaldsskóla endurspegli þær áherslur og markmið sem lög um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna grundvallast á. Til þess að markmið laganna náist þurfa allir aðilar sem koma að veitingu þjónustu við börn og fjölskyldur þeirra að vinna saman og þar er skólakerfið og íþrótta- og æskulýðsvettvangur ekki undanskilinn. Líkt og ég hef farið hér yfir miða þær breytingar sem lagðar eru til á gildandi lögum að því að skýra betur tengsl og samspil þeirra lagabálka sem um ræðir og skapa þannig forsendur til að lög um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna komist að fullu til framkvæmda.

Virðulegi forseti. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar frá nóvember 2021 er fjallað um úrræði fyrir börn og barnafjölskyldur og að þau verði endurskipulögð í samræmi við lög um þjónustu í þágu farsældar barna. Mikilvægur liður í þeirri vinnu er endurskoðun úrræða og þjónustu innan skólakerfisins og í því skyni hefur mikil vinna átt sér stað innan mennta- og barnamálaráðuneytisins við mótun nýrrar löggjafar um skólaþjónustu. Áformað er að leggja fram frumvarp þar að lútandi á yfirstandandi löggjafarþingi. Líkt og fram kemur í frumvarpinu sem ég mæli hér fyrir í dag er mikilvægt að skoða þær tillögur sem hér eru lagðar fram með þá vinnu í huga.

Virðulegi forseti. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er jafnframt lögð áhersla á að aðbúnaður og réttindi barna á Íslandi séu ávallt í fyrirrúmi. Samþykkt þessa frumvarps sem ég mæli hér fyrir hefur jákvæð áhrif á réttindi barna og stuðlar að því að íslensk stjórnvöld uppfylli í auknum mæli skyldur sínar samkvæmt samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins sem lögfestur var hér á landi fyrir tíu árum síðan með lögum nr. 19/2013.

Virðulegi forseti. Að lokinni þeirri umræðu sem mun verða hér á eftir legg ég til að frumvarpinu verði vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis.