154. löggjafarþing — 11. fundur,  9. okt. 2023.

breyting á ýmsum lögum í þágu barna.

240. mál
[17:34]
Horfa

mennta- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir frábært andsvar og fyrirspurn og byrja á því að segja að ég þakka hv. þingmanni líka fyrir að deila sinni reynslu hér í ræðustól Alþingis. Varðandi það hvernig við þjónustum börn og ungmenni, þegar barn hættir að vera barn, verður ungmenni og fullorðinn einstaklingur, þá langar mig í fyrsta lagi að nefna að innan framhaldsskólakerfisins erum við jafnframt að taka samþættinguna á það stig að við viljum að þjónustan sé greið þar eftir 18 ára aldur með sama hætti.

Í lögum um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna er líka kveðið á um það að þegar barn nær fullorðinsaldri þá eigi að taka við og vera búið að vinna sérstaka áætlun um það hvernig þjónustan fylgi síðan áfram. Þó að það gerist ekki alveg í sömu kerfum og viðkomandi fær þjónustu fyrir 18 ára aldur þá eigi slík áætlun að vinnast og það eigi að fá alla aðila þar að borðinu, þar á meðal sveitarfélagið og þær stofnanir sem um ræðir.

Þetta er klárlega eitthvað sem við þurfum að bæta okkur í sem samfélag þannig að ég tek undir með hv. þingmanni að við þurfum bæði að vera tilbúin til að skoða það að gera áframhaldandi breytingar eða fylgja eftir því sem segir í lögunum við innleiðingu þeirra í öllum sveitarfélögum landsins. Þannig að já, ég deili skoðun með hv. þingmanni um mikilvægi þess að þetta sé gert. Lögin eiga til lengri tíma að tryggja það, en ég er handviss um að við erum ekki komin á þann stað í dag og því miður held ég og fullyrði það að við séum enn með börn sem eru að verða fullorðin og fá ekki þjónustu áfram þegar þau ná 18 ára aldri og því verðum við að breyta.