154. löggjafarþing — 12. fundur,  10. okt. 2023.

um afsögn fjármála- og efnahagsráðherra.

[13:33]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf):

Forseti. Nú þarf ríkisstjórnin öll að fara að hugsa sinn gang. Ríkisstjórnin öll varði þessa bankasölu frá fyrsta degi. Hæstv. forsætisráðherra taldi hæstv. fjármálaráðherra hafa axlað ábyrgð með því að leggja niður Bankasýsluna á sínum tíma. Samfylkingin hefur frá upphafi gert athugasemdir við feril þessa máls. Við höfum fengið skýrslu eftir skýrslu og athugun eftir athugun þar sem komist er að neikvæðri niðurstöðu um það hvernig utan um þetta var haldið. Nú hefur komið á daginn að Samfylkingin hafði á réttu að standa í þessu máli og ríkisstjórnin þarf að láta í sér heyra hvernig hún ætlar að bregðast við, ekki bara út af þessu stóra máli heldur blasa nú við miklar áskoranir í efnahags- og velferðarmálum, m.a. út af fjárlögum þess manns sem ríkisstjórnin hefur stutt, þess flokks sem stýrir fjármálaráðuneytinu. Við þurfum að fá að vita hér í þinginu hvert framhaldið verður vegna þess að þetta eru stórar og afdrifaríkar ákvarðanir sem er verið að tala um þessa dagana.