154. löggjafarþing — 12. fundur,  10. okt. 2023.

afsögn fjármála- og efnahagsráðherra.

[13:41]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Hinum sérstöku hæfisreglum stjórnsýslulaga er ekki aðeins ætlað að koma í veg fyrir að ómálefnaleg sjónarmið hafi áhrif á efni stjórnvaldsákvarðana heldur er þeim einnig ætlað að stuðla að því að almenningur geti treyst því að stjórnvöld leysi úr málum á hlutlægan hátt. Það traust brást við bankasöluna. Það er afar mikilvægt að almenningur fái að vita hvernig í raun var í pottinn búið og ekki síður að ráðherra axli ábyrgð á gjörðum sínum og viti hvaða skyldum hann hefur að gegna. Fjármálaráðherrann sagði auðvitað af sér. Hvað annað? Það kom ekkert annað til greina. Ábyrgð fjármálaráðherrans er skýr samkvæmt lögum og á það höfum við í Samfylkingunni bent allan tímann. Spurningin er hins vegar hvað þessi staða þýðir fyrir stjórnarsamstarfið og þau mikilvægu verkefni sem við blasa í íslensku samfélagi. Það má ekki slá öllu á frest (Forseti hringir.) fyrir hverja krísuna á fætur annarri í þessu stjórnarsamstarfi. (Forseti hringir.) Almenningur hefur ekki efni á þeim farsa.