154. löggjafarþing — 12. fundur,  10. okt. 2023.

afsögn fjármála- og efnahagsráðherra.

[13:53]
Horfa

Ingibjörg Isaksen (F):

Virðulegi forseti. Ég held að við séum öll hér inni ásamt þjóðinni allri bara að melta fréttir morgunsins og að íhuga hver næstu skref verða. Svo ég útskýri aðeins okkar hlið þá er það mín sýn að þegar þessi sala var ákveðin og var samþykkt hér í þinginu þá hafi allir gert það út frá bestu vitund og bestu upplýsingum og ráðleggingum sem við höfðum á þeim tíma. Hins vegar er það þannig að valdi fylgir vissulega ábyrgð og kann ég að meta það og virði fjármálaráðherra meira fyrir að hafa stigið til hliðar núna í morgun og axlað þessa ábyrgð á sölu bankans. En að því sögðu er afar mikilvægt við sölu ríkiseigna að það ríki gagnsæi og að allar upplýsingar séu uppi á borðum og að við ávinnum okkur aftur traust almennings þegar kemur að sölu ríkiseigna því að þar er svo sannarlega verk að vinna.