154. löggjafarþing — 12. fundur,  10. okt. 2023.

afsögn fjármála- og efnahagsráðherra.

[13:57]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegur forseti. Það er ágætt að rifja aðeins upp forsöguna. Það var á 137. löggjafarþingi árið 2009 sem lög um Bankasýsluna voru sett af ríkisstjórn Vinstri grænna og Samfylkingar sem þá var við völd. Hæstv. þáverandi fjármálaráðherra sagði í ræðu sinni að Bankasýslu ríkisins væri falið að undirbúa að vinna tillögur um sölu á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum, gera tillögu til fjármálaráðherra um hvort og hvenær fýsilegt væri að bjóða tiltekna eignarhluti til sölu á almennum markaði. Og þegar endurreisn fjármálakerfisins væri lokið var gert ráð fyrir að stofnunin væri lögð niður.

Fjármálaráðherra lagði til að stofnunin yrði lögð niður þegar endurreisnin hafði átt sér stað í bankakerfinu. Því var mótmælt. Það var talið mikilvægt að þessi armslengd væri áfram frá stjórnsýslunni í þessum málaflokki. Nú kemur það í ljós að umboðsmaður telur það óskýrt að vanhæfisreglurnar gildi. Aðkoma ráðherrans var með nákvæmlega sama hætti í fyrra útboði og því seinna, (Gripið fram í.) með nákvæmlega sama hætti. (Forseti hringir.) Það er þarna sem einhver misskilningur er um að vanhæfisreglur gildi (Forseti hringir.) og það er sá ómöguleiki sem hv. þm. Hildur Sverrisdóttir var að tala um áðan.