154. löggjafarþing — 12. fundur,  10. okt. 2023.

Störf þingsins.

[14:27]
Horfa

Elva Dögg Sigurðardóttir (V):

Virðulegur forseti. Afsögn fjármálaráðherra eru stórar fréttir en þær mega ekki varpa skugga á þau mikilvægu málefni sem ráðuneytið hefur með höndum. Mig langar til að nota þetta tækifæri og hvetja hvern þann sem tekur við embættinu til að taka á þeim af festu. Í síðustu viku var sýning opnuð undir nafninu Mennt var máttur, í samstarfi við Landssamtök íslenskra stúdenta og Bandalag háskólamanna. Sýningin stendur enn yfir og ég hvet fólk til að mæta á hana. Hún varpar skýru ljósi á slæma stöðu námslánakerfisins og hvert Ísland stefnir ef Menntasjóður námsmanna verður áfram undirfjármagnaður. Í viðtali í tengslum við sýninguna benti Alexandra Ýr van Erven, forseti LÍS, á þá staðreynd að vextir á verðtryggðum námslánum eru 4% en vextir á verðtryggðum húsnæðislánum oft 2–3%. Með öðrum orðum erum við að stefna ungu fólki í skuldir á mun verri kjörum en bjóðast öðrum í samfélaginu. Á sama tíma búa 14–17% íslenskra háskólanema við fæðuóöryggi sem stafar í langflestum tilvikum af fjárhagslegum aðstæðum nemenda.

Ég þarf ekki að fara mörgum orðum um það hversu skaðlegur fæðuskortur getur verið heilsu fólks. Ofan á þetta leggst vaxtaumhverfi sem ungt fólk býr við eftir að námi lýkur. Hvernig á ungt fólk að koma sér þaki yfir höfuðið, hefja lífið og stofna fjölskyldu í þessu umhverfi? Þetta er eitt af þeim verkefnum sem ríkisstjórnin hefur alveg gleymt að takast á við. Námslánakerfið okkar er tæki til að fjárfesta í mannauði og menntun, að tryggja ungu fólki fullnægjandi kjör er fjárfesting í tækifærum framtíðarinnar sem felur í sér ábata fyrir allt samfélagið. Áherslur ríkisstjórnarinnar endurspegla ekki þessa fjárfestingu. Ég vona innilega að næsti fjármálaráðherra muni standa með námsfólki og tryggja þeim fullnægjandi kjör og tækifæri til framtíðar. Við þurfum ríkisstjórn sem setur hagsmuni stúdenta hærra í forgangsröðun.