154. löggjafarþing — 12. fundur,  10. okt. 2023.

Störf þingsins.

[14:36]
Horfa

Jódís Skúladóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Laugardaginn 7. október síðastliðinn voru mótmæli hér á Austurvelli. Þar kom saman ótrúlegur fjöldi fólks til að mótmæla því ástandi sem er í laxeldi allt í kringum landið. Ég mætti þarna að sjálfsögðu. Þetta er gríðarlega stórt umhverfismál og mér var bæði ljúft og skylt að vera þar og fyrir það hef ég fengið gagnrýni.

En mig langar að koma hér og bregðast aðeins við því að sérstaklega fyrir austan hefur mikið verið talað um að hér sé verið að blanda öllu saman, það hafi orðið slys á Vestfjörðum en allt sé í góðu standi á Austurlandi. Í fyrsta lagi skulum við ekki kalla það slys þegar keyrt er með opin augun og háu ljósin beint af augum á vegg. Það er ekki slys. Ástandið er algerlega ótrúlegt og ég hvet fyrirtækin sjálf til að gyrða sig í brók og fara að axla meiri ábyrgð. Ráðherra málaflokksins hefur lagt til miklar breytingar og engin slys eru án afleiðinga. Það er verið að taka þetta föstum tökum í regluverkinu en það er ekki nóg ef ekki er farið eftir því.

Hvað varðar fiskeldi á Austurlandi þá sat ég í kjördæmaviku fund með sveitarfélaginu Múlaþingi og spurði um stöðuna. Þar er það alveg ljóst að íbúar Seyðisfjarðar hafa hafnað öllu fiskeldi í firðinum. Sveitarstjórn hefur frá upphafi, frá því að sveitarfélagið var sameinað og þessi sveitarstjórn komst á og æ síðan, ekki viljað svara neinu er varðar það og það voru engin svör á þessum fundi frekar en áður. Sveitarstjórn ætlar ekki að standa með íbúum Seyðisfjarðar, verð ég að lesa út úr því. Að lokum vil ég benda á að það hefur ekki verið slysalaust fyrir austan; (Forseti hringir.) margra mánaða stopp í vinnslu vegna alvarlegra veirusýkinga, blóðþorra og fleira. Það er ekki merki um góðan gang.