154. löggjafarþing — 12. fundur,  10. okt. 2023.

Störf þingsins.

[14:41]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Áhugavert mál sem við erum að glíma við í dag, en höfum það algerlega á hreinu að þegar pabbi minn mætir í banka og ætlar að opna bankareikning þá er það ekki hægt. Þá þarf að bíða í dágóðan tíma, sólarhring, og rannsaka hvaðan peningurinn kemur o.s.frv., en þegar faðir fjármálaráðherra kaupir hlut í banka þá gerist það bara á einni nóttu, samdægurs. Við þurfum að skoða aðeins þessi orð ráðherra þegar ráðherra segir að það sé skrýtið að umboðsmaður geri ekki athugasemd við stjórnsýsluna í fyrri sölunni af því að hún hafi verið nákvæmlega sú sama og í seinni sölunni. En það segir einfaldlega í lögum um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum, með leyfi forseta:

„Þegar tilboð í eignarhlut liggja fyrir skal Bankasýsla ríkisins skila ráðherra rökstuddu mati á þeim. Ráðherra tekur ákvörðun um hvort tilboð skuli samþykkt eða þeim hafnað og undirritar samninga fyrir hönd ríkisins um sölu eignarhlutarins.“

Í greinargerðinni er fjallað nánar um þetta, með leyfi forseta:

„Ýmsar leiðir koma til greina við sölu á eignarhlutum í fjármálafyrirtækjum, t.d. almennt útboð verðbréfa, skráning bréfa fjármálafyrirtækis á skipulegum verðbréfamarkaði eða tilboðssala. Sala hluta með útboði eða skráning bréfa í kauphöll er ferli sem er frábrugðið hefðbundinni tilboðssölu. Sem dæmi er ekki um mat á einstaka tilboðum eða eiginlegar samningaviðræður við einstaka kaupendur að ræða þegar almennt útboð eða skráning bréfa fer fram.“

Með öðrum orðum, forseti: Þegar það er tilboðssala er mat á einstaka tilboðum. Þarna er munur á ferlinu í fyrri sölunni og í seinni sölunni. Þess vegna er gerð athugasemd við seinni söluna en ekki fyrri söluna þegar var almennt útboð. Hérna er talað um tímamót, að axla ábyrgð, en þegar málið liggur svona augljóst fyrir um vanhæfi til að taka ákvörðun um sölu á eignarhlut til föður síns þá hefði ráðherra tvímælalaust átt að stíga til hliðar strax á meðan rannsóknarferlið var í gangi en ekki í lok þess, sem er jú virðingarvert á þeim mælikvarða en ekki í heildarsamhengi hlutanna.