154. löggjafarþing — 12. fundur,  10. okt. 2023.

samgönguáætlun fyrir árin 2024–2038 ásamt fimm ára aðgerðaáætlun fyrir árin 2024–2028.

315. mál
[16:01]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Því miður þá verð ég aftur að vera ósammála hv. þingmanni, því að samgöngusáttmáli höfuðborgarsvæðisins snerist einmitt um það að tengja, að ná þessari heildarhugsun um að menn séu ekki að gera eitthvað í sínu sveitarfélagi eða að sveitarfélagamörkin komi í veg fyrir að stígar tengist eða vegir tengist eða að það sé sams konar sýn á það hvernig fólk eigi að geta flutt á milli hverfa. Þannig að ég vil halda því fram að þar séum við akkúrat að ná býsna góðum árangri. Og með þessari auknu áherslu sem þar hefur verið sett núna á síðustu mánuðum í hjóla- og göngustíga þá veit ég bara að það er að ganga mjög vel og það mun ganga enn betur.

Varðandi síðan almenningssamgangarekstur sveitarfélaga þá er það ekki þetta sem ég heyri frá Ísafirði, Akureyri, Egilsstöðum og öðrum sveitarfélögum að þau séu að kvarta yfir því að þau geti ekki rekið almenningssamgöngur og reka þau þó jafnvel ókeypis strætóa. En ég heyri það hins vegar talsvert hér og við höfum verið í viðræðum við sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu. Verkefnið hefur verið þar. (Forseti hringir.) En við höfum verið tilbúin til þess að taka þetta samtal við sveitarfélögin hérna á höfuðborgarsvæðinu og það er engin vafi á því að það mun skila árangri fyrir alla.