154. löggjafarþing — 12. fundur,  10. okt. 2023.

samgönguáætlun fyrir árin 2024–2038 ásamt fimm ára aðgerðaáætlun fyrir árin 2024–2028.

315. mál
[16:44]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég er sammála hv. þingmanni. Það er mikilvægt og það er nú eiginlega tilgangurinn með því að byggja upp hafnirnar að þær verði sjálfbjarga og komist í það að fá tekjur fyrir sjálfsaflafé. Mig langaði að koma aðeins inn á tvennt, örstutt. Það var annars vegar um flugmálin. Eftir varaflugvallargjaldið fáum við peninga til að byggja upp bæði flughlöðin og akbrautir á Akureyri og Egilsstöðum. Síðan hefur svo sem enginn staðið í röð eftir að byggja upp almennilegt hús hérna í Reykjavík þannig að það er svo sem bara verkefnið hjá okkur á sama hátt og ýmislegt annað sem ríkið þarf að gera. Ef það koma einhverjir aðilar og það er valkostur að gera það þá er sjálfsagt að skoða það. En þetta varaflugvallargjald á auðvitað að tryggja öryggi, það á að geta tryggt það að flugvellirnir geti sinnt áætlana-, sjúkra- og almennu flugi. Og hver getur haldið því fram að þessi flugstöð í Reykjavík geti sinnt almennu flugi eins og hún lítur út í dag? Það er alla vega alveg á mörkunum. Þannig að ég held að þetta sé eitt af því sem við þurfum að horfa á. Við þurfum líka að horfa á fleira. Orkuskiptin í flugi, þar þurfum við að vera á undan. Það er von á fyrstu kennsluflugvélunum núna 2024 og við þurfum þá að vera tilbúin að takast á við það.

Svo langaði mig að koma aðeins inn á þessa fjármögnun á vegakerfinu. Ef ég man þetta rétt, og ég bið hv. þingmann og þingheim að skamma mig ekki ef ég fer ekki alveg nákvæmlega rétt með tölurnar, er stærðargráðan eitthvað í kringum 50 milljarðar. Ef hún hefði verið sú sama og var í upphafi aldarinnar værum við komin í einhverja 80 milljarða í dag. Þannig að ef við hugsum um þá fjármögnun sem við erum að fara inn í með notkunargjöldum í höfuðborgarsáttmálanum, í samvinnuverkefnunum, í jarðgöngunum og á sama tíma að auka einhverjar tekjur ríkissjóðs í gegnum þetta kerfi, þá er þetta talsvert svigrúm ef við erum að hugsa um sams konar álögur á bíleigendur og voru í upphafi aldarinnar.