154. löggjafarþing — 12. fundur,  10. okt. 2023.

samgönguáætlun fyrir árin 2024–2038 ásamt fimm ára aðgerðaáætlun fyrir árin 2024–2028.

315. mál
[17:47]
Horfa

Ingibjörg Isaksen (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. ráðherra fyrir yfirferð hans hér á samgönguáætlun, afar mikilvægt plagg og gott að það sé komið fyrir þingið og því verður vísað til hæstv. umhverfis- og samgöngunefndar þar sem ég einmitt sit. Ég ætla ekki að fara í einhver tiltekin verkefni í máli mínu, þótt ég fari kannski í eitt og eitt, heldur renna aðeins yfir stóru myndina og mun væntanlega nýta tækifærið innan nefndarinnar til að taka sérstök sveitarfélög og sérstök svæði fyrir.

Gert er ráð fyrir á 15 ára tímabili samgönguáætlunar að 909 milljörðum verði varið til samgangna, þar af um 263 milljörðum á fyrsta fimm ára tímabil áætlunarinnar. Til viðbótar, eins og fram hefur komið í máli manna á undan, eru verkefni sem verða fjármögnuð með öðrum hætti. Þá erum við að tala um jarðgangaáætlun, samvinnuverkefni og samgöngusáttmálann.

Framkvæmdatöflur fyrstu fimm ár samgönguáætlunarinnar mótast af því svigrúmi sem fjármálaáætlunin veitir hverju sinni. Nú er ljóst að eitt af meginverkefnum fjármálaáætlunar næstu ára, til ársins 2028, er að draga úr þenslu í þjóðfélaginu og halda aftur af ríkisútgjöldum. Þar af leiðandi eru forsendur framkvæmda í samgönguáætlun miðaðar við fjármálaáætlun þar sem miðað er við að sporna gegn þessari verðbólgu og frekari hækkun vaxta með auknu aðhaldi og frestun framkvæmda. Því er alveg augljóst að það er mikilvægt að klára þær stóru framkvæmdir sem nú þegar eru hafnar og að ekki verði byrjað á neinum stórum framkvæmdum næstu þrjú árin a.m.k. að öllu óbreyttu.

Hvað vegasamgöngur varðar hefur Vegagerðin áætlað að árlega þurfi að verja um 15 milljörðum til viðhalds þjóðvega til að halda í við niðurbrot. Í tillögunni er lagt til að framlög til viðhalds vega verði samtals 68 milljarðar á tímabilinu 2024–2030. Hæstv. ráðherra fór yfir áðan í máli sínu að einbreiðum brúm á hringveginum verði fækkað til muna og í rauninni eytt út á tímabilinu og þörfin fyrir slíkt er víða, ekki eingöngu á hringveginum heldur víða um sveitir. Það skiptir samfélög gríðarlegu máli í mikilvægri tengingarvinnu við nærsamfélög að brýr séu í lagi og það getur skipt sköpum að tengingar standist þær kröfur sem þróun samfélagsins setur. Við sjáum það núna með stækkandi samfélagi, fjölbreyttara samfélagi og fjölbreyttari atvinnutækifærum víða um land að kröfurnar hafa breyst. Við fáum fréttir um það að mjólkurbílar, þungaflutningar, vinnutæki o.fl. komist ekki yfir þær brýr sem eru í viðkomandi sveitarfélagi og því fagna ég að hér sé verið að ráðast í framkvæmdir hvað varðar brýr og legg áherslu á að því verði haldið áfram þegar hringveginum er náð.

Aðeins yfir í vetrarþjónustu sem skiptir gríðarlega miklu máli á okkar landi, Íslandi, og sér í lagi í byggðarlögum þar sem samgönguleiðir eru ekki greiðfærar fleiri daga á ári. Þar þarf að bæta í svo vel megi við una. Með góðri vetrarþjónustu er stuðlað að auknu hagræði og tækifærum fyrir bæði starfsfólk, fyrirtæki og íbúa svæða. Ég held að margir sem búa ekki við slíkar aðstæður átti sig ekki á því að áreiðanlegar samgöngur allt árið um kring skipta alveg gríðarlega miklu máli og eru eins og margt annað í þessari áætlun lykilþáttur í eflingu vinnusóknarsvæða. Sterk svæði efla þróun atvinnulífs og stöðu og að því leyti getur fólk sótt vinnu til fleiri staða en það býr á sem eykur fjölbreytileika og tækifæri. Vetrarþjónustan er ekki aðeins mikilvæg fyrir vöruflutninga milli svæða heldur á til að mynda uppbygging ferðaþjónustunnar einnig mikið undir því að þetta sé í lagi. Víða um land treysta ferðaþjónustuaðilar sem sjá hag sinn í að bjóða upp á heilsársþjónustu á það að vegum sé haldið opnum og greiðfærum og ég veit að hæstv. ráðherra er fullkunnugt um þetta. Náttúruperlur sem draga að ferðamenn eru líka oftar en ekki staðsettar þannig að akstursleiðir að þeim þarf að halda opnum yfir vetrartímann. Við erum stanslaust að byggja ferðaþjónustuna þannig upp að hún sé heilsársþjónusta alls staðar á landinu og höfum við tekið eftir því að ferðaþjónustutímabilið er farið að lengjast í báðar áttir. Því er afar mikilvægt að það sé hugað að þessu.

Mig langar að nefna einn veg, Öxi, sem er gott dæmi um veg sem er mikilvægt að bæta þjónustu á en hann er sá vegur dreifbýlis hérlendis þar sem flest slys verða miðað við ekna kílómetra. Vegurinn er einmitt eitt af þeim flýtiverkefnum sem á að ráðast í og hann væri annars ekki á dagskrá á næstu árum, en núna er verkefnið komið á dagskrá og mikilvægt að gæta þess að það fari af stað. Þetta er gríðarlega mikilvægt og tengir saman svæði og var, ef mig minnir rétt, eitt af þeim verkefnum sem var rætt um að ætti að ráðast í þegar var verið að tala um sameiningar sveitarfélaga. Þegar stjórnvöld gefa það út að þetta sé ein af þeim forsendum er mikilvægt að staðið sé við það.

Ríkisstjórnin hefur sett fram áform um að flýta fleiri framkvæmdum við uppbyggingu arðbærra samgönguinnviða á komandi árum sem fjármagnaðar verða að hluta eða öllu leyti með umferðar- eða veggjöldum, en veggjöld gætu skilað allt að 0,4% af landsframleiðslu í sértekjum árið 2033. Kostnaður við innviðauppbyggingu í vegasamgöngum er um 30–40 ár af veg- og flýtigjöldum. Árleg fjárfesting í vegasamgöngum á tíu ára tímabili verður ef að líkum lætur 1,1–1,7% af landsframleiðslu. Fjárfestingarstigið má segja að sé svipað því sem gerðist í Noregi á síðasta áratug. Innheimta veggjalda mun hjálpa til við að fjármagna þá innviðauppbyggingu sem við stefnum að í þessari áætlun og þá er ég að tala um jarðgöng, flýtiverkefni og samgöngusáttmálann. Það er líka mikilvægt að við fáum fram með hvaða hætti þessi veggjöld verða og mig langar að brýna okkur öll hérna inni til að sú gjaldtaka verði sanngjörn hvað varðar landsbyggðina. Það er afar mikilvægt að það sé haft í huga þar sem er oft um langan veg að fara á milli atvinnusvæða m.a.

Í tillögunni að samgönguáætlun er sett fram jarðgangaáætlun til 30 ára sem ég fagna mikið. Mig langar áður en ég vík að þeirri umræðu aðeins að fara yfir möguleikann á ferjuáætlun. Við erum með ferjur hérna á landinu og nú ætla ég að hætta mér út í það að telja þær upp. Við erum með Herjólf, við erum með Baldur og síðan erum við með ferjuna út í Hrísey og út í Grímsey, Sæfara. Hann hefur einmitt farið í slipp og mér skilst að þessar ferjur séu að fara í slipp að meðaltali á tveggja ára fresti sem er vel en afar mikilvægt að það sé horft til þess tímaramma sem hægt er að taka viðkomandi skip í slipp þannig að það hafi ekki áhrif á ferðaþjónustutímabilið, t.d. í Grímsey þar sem er stólað á þessar samgöngur í og úr eyjunni. Ég veit að Vegagerðin og íbúar Grímseyjar hafa átt í góðu samtali vegna þessa og það er unnið að úrbótum hvað varðar upplýsingagjöf og annað. Að þessu sögðu er líka mikilvægt, af því að þessar ferðir kosta mikið og það þarf að fara yfir þarfagreiningar, að það séu veittar vissar fjárveitingar til að fara í þessa forvinnu þannig að hún bíði ekki bara og sé öll eftir þegar búið er að taka ákvörðun um að fara í nýja ferju, heldur sé búið að fara í þessa þarfagreiningu og skoða hvaða stærð skips og hvaða þjónustu þarf að bjóða upp á og afl og eitthvað svoleiðis sem ég þekki ekki nægilega vel.

En yfir að jarðgangaáætluninni. Hér er lögð til forgangsröðun næstu tíu jarðganga á Íslandi ásamt fjórum öðrum jarðgangakostum til nánari skoðunar. Þessi jarðgöng eiga það öll sameiginlegt að vera lykilþáttur í að treysta búsetuskilyrði og veita umferð fram hjá hættulegum og óáreiðanlegum fjallvegum oft og tíðum. Um er að ræða flest jarðgöng sem hafa komið til umfjöllunar hér í þinginu og víðar á síðustu árum. Jarðgöng eru víða eina leiðin til að tryggja góðar heilsársvegasamgöngur milli byggða. Göng tengja atvinnusvæði, styrkja byggðaþróun og bæta umferðaröryggi og má einnig segja að þau auki lífskjör og styrki samkeppnishæfni landshluta með betra aðgengi að þjónustu. Það er því einkar mikilvægt að fá fram jarðgangaáætlun af þessu tagi sem byggir á forgangsröðun út frá því þar sem þörfin er brýnust. Í þessu ljósi er mikilvægt að við áttum okkur á því að stundum eru aðstæður breytilegar og það þarf stundum að breyta af leið. Í þessari samgönguáætlun eru taldir upp Vestfirðir, Tröllaskagi og Austfirðir sem þau svæði sem brýnast er að ráðast í. Staðan í dag er með þeim hætti að einungis ein göng eru tilbúin en undirbúningstími jarðgangaframkvæmda er langur og því er mikilvægt að fjármagni sé ráðstafað jafnt og þétt til undirbúnings næstu ganga þannig að við séum tilbúin með öll gögn og hægt sé að ráðast í næstu göng og svo koll af kolli.

Aðeins að varaflugvallargjaldinu tíðrædda. Það gerir okkur mögulegt að byggja upp Akureyrarflugvöll og Egilsstaðaflugvöll sem fullnægjandi varaflugvelli fyrir Keflavíkurflugvöll (Forseti hringir.) ásamt því að gera nauðsynlegar úrbætur á Reykjavíkurflugvelli. Það er töluverð uppsöfnuð viðhaldsþörf þarna og einnig á að ráðast í nýja flugstöð við Reykjavíkurflugvöll, (Forseti hringir.) sem er afar mikilvægt. Með því er a.m.k. verið að sýna fram á það, að mínu mati, að þar eigi flugstöðin að vera (Forseti hringir.) um ókomna tíð.

Ég ætla mér líka að fara í leiðsögutækni o.fl. og hætta mér út á ókunnar slóðir en ég geymi það kannski til seinni umræðu og þakka kærlega fyrir.