154. löggjafarþing — 12. fundur,  10. okt. 2023.

samgönguáætlun fyrir árin 2024–2038 ásamt fimm ára aðgerðaáætlun fyrir árin 2024–2028.

315. mál
[20:51]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S):

Frú forseti. Mig langaði að koma í aðra ræðu og rétt ræða um það sem ég náði rétt að minnast á áðan, sem er í samgönguáætluninni undir Markmið um hagkvæmar samgöngur, atriði 3.1, menntun í flugi og flugtengdum greinum. Þar stendur, með leyfi forseta:

„Skoðaðir verði kostir þess að menntun í flugi og flugtengdum greinum verði hluti af opinberu menntakerfi og stuðlað að rannsóknum og kennslu háskólasamfélagsins.“

Eins og við vitum er flugið á Ísland bara sérstakt fyrirbæri í hinum vestræna heimi og er hvergi stærra í efnahagslífi nokkurs vestræns lands og er náttúrlega líka síðan undirstaðan í ferðaþjónustunni sem er mjög stór í okkar umhverfi, hefur verið um 8% í landsframleiðslunni, fyrir utan Covid-árin, og síðan flugið ofan á það. Það er dýrt að læra flug. Það hafa komið fram tölur núna um að þetta séu svona 14, 15 milljónir og fagna ég því að í samgönguáætlun sé minnst á þennan þátt vegna þess að það er gríðarlega mikilvægt að við komum þessu í einhvern þann farveg að það verði eðlileg endurnýjun og fjölgun. Þó að 0,4% af vinnuafli á Íslandi sé menntaðir atvinnuflugmenn — sem er náttúrlega ótrúleg tala, einn af hverjum 220 þegar ég skoðaði þetta fyrir tveim, þrem árum, þetta þekkist ekki nokkurs staðar annars staðar — þá þarf líka að viðhalda þessum hópi. Miðað við þær hugmyndir sem hafa verið hér í flugrekstri á Íslandi hjá þeim flugrekendum sem eru að fljúga um Keflavíkurflugvöll sem tengimiðstöð og tengja Bandaríkin og Evrópu saman, ætli það séu þá ekki öðru hvorum megin við 50 vélar í dag í farþegaflugi, svo náttúrlega líka í fraktinni. Því fagna ég því að það komi fram í þessu plaggi þessi áhersla, sem kom hérna fyrst fram í flugstefnunni fyrir ekki svo löngu síðan. Ég vil hvetja hæstv. ráðherra til allra góðra verka til að koma þessu í einhvern farveg. Væntanlega tengist það líka menntamálum þjóðarinnar, hvernig við getum gert enn betur í þessum þætti.

Ég ætla ekki að angra forseta með að halda áfram með önnur atriði sem ekki var farið í áðan. Ég vildi bara koma þessum punkti að.