154. löggjafarþing — 14. fundur,  12. okt. 2023.

aðgerðir gegn ópíóíðafíkn.

[11:17]
Horfa

Indriði Ingi Stefánsson (P):

Forseti. Sífellt fleiri leita sér hjálpar vegna hvers kyns ópíóíðafíknar en biðlistarnir eru langir, svo langir að tveir hafa látist það sem af er þessu ári á meðan þeir voru á biðlista. 17 manns létust af völdum ofneyslu ópíóíða á fyrstu sex mánuðum þessa árs. Ráðherra kynnti tillögur um aðgerðir gegn ópíóíðafíkn í vor sem ríkisstjórnin samþykkti. Þar kom fram að mikilvægt væri að grípa strax inn í þennan vanda. Lítið hefur þó gerst í málaflokknum síðan fyrir utan það að aðgengi að neyðarlyfi við ofskömmtum ópíóíða hefur verið bætt. Hins vegar hafa sértæk úrræði fyrir ópíóíðafíkla ekki verið aukin og sérfræðingur í skaðaminnkun segir að þröskuldur að viðhaldsmeðferð við ópíóíðafíkn sé allt of hár. Landlæknir tekur í sama streng og segir að endurskoða þurfi meðferð við fíknisjúkdómum. Í Kveik í síðustu viku kynntust áhorfendur Davíð Þór sem fær ávísað morfínlyfi á hverjum degi til viðhaldsmeðferðar. Vandamálið er þó að það sem honum er ávísað er oftast ekki nóg til að geta komist í gegnum daginn án þess að neyðast til að ná sér líka í ólögleg lyf. Það er því varla hægt að kalla þetta nægjanlega eða sanngjarna meðferð.

Það skortir heildarsýn og heildarstefnu í málaflokknum. Sú refsistefna sem rekin hefur verið á Íslandi áratugum saman er ekki að skila neinum árangri. Það skortir einnig getu til að horfa á málaflokkinn heildrænt og skoða af alvöru hvernig við getum dregið úr vanda fólks með forvörnum í félagslega kerfinu og hvers vegna við erum að sjá aukningu í fíknivanda fólks. Því spyr ég hæstv. heilbrigðisráðherra: Er eitthvert samstarf í gangi milli heilbrigðisráðuneytisins og félagsmálaráðuneytisins til að rannsaka félagslega þætti fíknar og ráðast að rót vandans?