154. löggjafarþing — 14. fundur,  12. okt. 2023.

bann við fiskeldi í opnum sjókvíum.

5. mál
[11:25]
Horfa

Flm. (Halldóra Mogensen) (P):

Forseti. Skaðinn sem hefur orðið af völdum sjókvíaeldis hér á landi er hvorki óvæntur né ófyrirséður. Hann er afleiðing þess að Ísland flutti inn í heilu lagi mistök Noregs þrátt fyrir vitneskju okkar um að villti laxastofn Noregs hefði dregist saman um 50% undanfarin 20 ár. Og bara í fyrra, á einu ári, þá dóu 58 milljónir sjóeldislaxa úr sjúkdómum í Noregi — 58 milljónir. Nú er sagan að endurtaka sig hér á landi. Talið er að 20% laxa drepist í sjókvíum við Íslandsstrendur. Þessi tala er miklu hærri ef allt framleiðsluferlið er tekið inn í myndina. Hærra hlutfall laxa drepst í sjókvíum hér en í Noregi enda er hér lakara regluverk og eftirlit. Noregur hefði átt að vera Íslandi víti til varnaðar en í staðinn tókum við opnum örmum á móti Norðmönnum sem fannst þrengt að sér með auknu eftirliti og álögum þar í landi. Á nokkrum árum hefur sprottið upp hér sjókvíaeldi víða, á Vestfjörðum og Austfjörðum, og greinin hefur vaxið á allt of miklum hraða.

Í byrjun október birti matvælaráðherra loksins stefnu um uppbyggingu og umgjörð lagareldis til ársins 2040. Verði stefnan samþykkt boðar hún margvíslegar og jákvæðar breytingar á núverandi regluverki, eftirliti og aðbúnaði. Hins vegar er núverandi staða svo alvarleg að það stendur eiginlega ekkert annað til boða en að stöðva fiskeldi í opnum sjókvíum strax. Við getum ekki beðið. Það er ekki nóg að þrengja bara regluverkið og minnka umfangið. Við þurfum að stoppa þetta. Það er of mikill fórnarkostnaður að bíða og fylgjast með óafturkræfum breytingum á náttúrunni okkar, á lífríkinu okkar, á líffræðilegum fjölbreytileika og vistkerfinu í heild. Opið sjókvíaeldi var tímaskekkja þegar þessum iðnaði var hleypt á fullt fyrir nokkrum árum, afurð skammsýnna sérhagsmuna og vangetu stjórnvalda að læra af reynslu annarra ríkja. Að leyfa það áfram eftir allt sem hefur farið úrskeiðis er bara með öllu óskiljanlegt.

Ég mæli því hér fyrir þingsályktunartillögu sem felur ráðherra að leggja til bann við fiskeldi í opnum sjókvíum við þessa yfirstandandi endurskoðun laga um fiskeldi sem er í gangi í ráðuneytinu. Samhliða því skuli ríkisstjórnin efla nýsköpun og fjölbreytt og umhverfisvæn atvinnutækifæri í þeim byggðarlögum sem byggja afkomu sína á fiskeldi í opnum sjókvíum.

Forseti. Þörfin á því að stöðva sjókvíaeldi ekki seinna en strax er brýn. Á dögunum var SalMar, móðurfélag Arnarlax í Noregi, sektað vegna skelfilegrar meðferðar á eldisdýrum. Sleppislys, erfðamengun, lúsaplága, eitranir, sjúkdómar og ill meðferð eldisdýra heyrir ekki til undantekninga í sjókvíaeldi. Þetta er óumflýjanlegur hluti af þessum iðnaði. Tíminn og reynslan hefur sýnt okkur það. Gróðinn veltur á því að ala gríðarlegan fjölda laxa á þröngu svæði og þetta eru því miður afleiðingarnar; dýraníð og skemmdarverk á vistkerfum landsins.

Vítin eru til þess að varast þau. Norska matvælaeftirlitið hefur stöðvað slátranir laxa þar í landi þegar vísbendingar voru um að það ætti að selja sjálfdauða laxa til neytenda eins og um ferskan fisk væri að ræða. Hver vill borða matvöru sem er framleidd með þessum hætti? Í Noregi hafa greiningar á áhrifaþáttum í umhverfi villtra laxa sýnt að fiskeldi hefur mikil áhrif á vistkerfið og getur leitt til óafturkræfra breytinga og jafnvel útrýmingar. Undanfarin 20 ár hefur villti laxastofninn þar í landi dregist saman um helming en sú breyting er rakin til opinna sjókvía. Þá hafa rannsóknir sýnt að erfðablöndun er að finna í 70% norskra áa. Svipað er uppi á teningnum í Skotlandi en stofnar villts lax og silungs hafa víða hrunið þar í landi og má það einkum rekja til faraldurs laxalúsar. Það er þess vegna um að ræða verulega víðtæk, neikvæð og alvarleg áhrif.

Allt bendir til þess að þessi saga muni endurtaka sig á Íslandi. Erfðablandaður lax hefur nú þegar fundist víða, t.d. í Blöndu, í Laxá í Aðaldal, Hofsá í Vopnafirði og víðs vegar um Vestfirði og Norðvesturland. Og þegar eldislax sleppur þá er nánast ógerningur að ná honum áður en hann gengur í ár og blandast villtum stofni. Norskir kafarar hafa undanfarnar vikur elt upp eldislax víða um land eftir að allt að 3.500 dýr sluppu úr kvíunum, mögulega fleiri, líklegast mun fleiri. Það er ljóst að ekki verður hægt að kemba allar ár eða ná öllum dýrum sem sluppu. Veiðitölur benda til þess að hlutfall strokulax í íslenskum laxveiðiám sé langt yfir því 4% marki sem Hafrannsóknastofnun miðar við sem ásættanlega áhættu gagnvart villta laxastofninum. Þetta er ekki ný þróun en sýnataka Hafrannsóknastofnunar á árunum 2014–2019 benti til þess að blöndun hefði þá þegar átt sér stað.

Það er siðferðilega óréttlætanlegt að láta hagnað fyrirtækjaeigenda ráða för þegar ljóst er að eldislax getur haft víðtæk og óafturkræf áhrif á íslenskt vistkerfi og náttúruauðlindir komandi kynslóða. Ef skortur er á vísindalegri fullvissu um að tiltekin framkvæmd eða stefna valdi umhverfinu skaða er það bæði siðferðileg og lagaleg skylda okkar að leyfa náttúrunni að njóta vafans. Af því leiðir að það er bæði siðferðileg og lagaleg skylda okkar að banna sjókvíaeldi strax.

Forseti. Ein ástæða þess að þessum iðnaði var tekið fagnandi hér á landi var að hann skapaði störf í byggðum sem þurftu sárlega á þeim að halda. Þetta eru byggðir sem sátu eftir þegar kvótinn var framseldur. Ábyrgð ríkisstjórnarinnar er að fara á svæðin og vinna náið með fólkinu á svæðinu til að skapa tækifæri sem eiga við á hverjum og einum stað. Ef byggðum er gefið tækifæri og bolmagn til að fara í aðrar áttir þá trúi ég því að þær hverfi frá þessum skaðlega iðnaði og horfi til framtíðar. Það er hægt að styðja við frumkvöðlastarf í umhverfisvænni matvælaframleiðslu. Það má styrkja tekjuöflunarleiðir sveitarfélaganna um allt land. Ríkisstjórnin má sýna í verki að hún styður við getu byggðanna til að standa undir blómlegu atvinnulífi í sátt við náttúru til lands og til sjávar, því að það er bara tímaspursmál hvenær opið sjókvíaeldi heyrir sögunni til. Það er bara tímaspursmál.

Forseti. Eftir nokkur ár munum við horfa til baka á hömlulaust sjókvíaeldi og þurfa að útskýra af hverju við brugðumst ekki við, af hverju við vorum ekki tilbúin að stoppa þennan ábyrgðarlausa glæp mannsins gagnvart náttúrunni, gagnvart lífríki sjávar og vistkerfinu í heild. Við munum þurfa að útskýra hvernig við horfðum fram hjá öllum fréttum af sleppifiskum, myndunum af illa förnum og lúsétnum löxum, ályktunum frá sérfræðingum og háværu kalli þúsunda mótmælenda. Við munum þurfa að svara fyrir það hvers vegna fyrirtæki sem velta milljörðum, án þess að greiða af neinu viti fyrir afnot af sameiginlegri auðlind okkar allra, fengu að velta afleiðingum af þeim umhverfisslysum sem þau ollu yfir á samfélagið og yfir á framtíðarkynslóðir.

Með þessari tillögu gefst þingmönnum tækifæri til að bregðast við og taka rétta ákvörðun fyrir umhverfið, fyrir náttúruna og fyrir komandi kynslóðir.