154. löggjafarþing — 14. fundur,  12. okt. 2023.

bann við fiskeldi í opnum sjókvíum.

5. mál
[11:38]
Horfa

Jódís Skúladóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég ætla að reyna að kjarna mig betur. Það er náttúrlega af og frá að ég sé að hugsa um stöðu þessara fyrirtækja. Ég hef engar áhyggjur af því hvað þau hafa fjárfest. Sveitarfélögin, fjölskyldurnar, fólkið sem á allt undir þessari atvinnu, það hefur fjárfest og skuldsett sig og sveitarfélögin farið í uppbyggingu á innviðum og annað, af því að þessi starfsemi er til staðar. Það er það sem ég er að segja.

Svo vil ég líka bæta því við að það er nákvæmlega þetta sem hæstv. ráðherra er að gera. Engin brot án afleiðinga, það hefur ítrekað komið fram í hennar orðum. Ég held að við séum að fara rétta leið. Ég ítreka það að ástandið er fullkomlega óboðlegt. Það er ekki um slysasleppingar að ræða í einstaka kví, það er ekki vandinn. Vandinn er í heildina sá að allt í kringum fiskeldi í opnum sjókvíum hefur gengið bara ákaflega illa.

Ég nefndi það hér í ræðu minni á dögunum að það væri einhver skipting á landinu. Ég heyri mikið fyrir austan að það megi ekki blanda öllu saman af því að allt gangi svo vel fyrir austan þótt það hafi óhappatilvik gerst þarna fyrir vestan. Það er ekki svo. Þar var vinnslustopp mánuðum saman vegna sýkinga í fiskinum, blóðþorra og annars. Það er ekki hægt að segja að þetta gangi vel víðast hvar. Þetta hefur bara í grunninn gengið mjög illa og þetta er ekki í góðu standi.

Ég vildi bara koma aftur upp og er kannski ekki með beina spurningu heldur bara ítreka það að ég er ekki að hugsa um hag norskra fjárfesta. Það er algerlega á hreinu. Ég er að hugsa um íslenska náttúru. En ég er líka að hugsa um þau sem báðu kannski ekki um þennan iðnað en hann kom og þau fengu störf og þau fjárfestu (Forseti hringir.) og byggðu upp samfélag í kringum það. Það má ekki bitna á þeim.