154. löggjafarþing — 14. fundur,  12. okt. 2023.

Fátækt og samfélagslegur kostnaður, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[13:09]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Mér finnst mikilvægt að fara hér yfir Evrópuskýrslu Barnaheilla þar sem kemur fram að 13,1% barna á Íslandi hafi búið við fátækt á árinu 2021 samanborið við 12,7% árið 2020 og 14% árið 2019. Þetta er sveiflan í þessari skýrslu. Af samanburðarlöndunum í þessari skýrslu Barnaheilla var hlutfallið lægst á Íslandi eða 13,1%, í Finnlandi 13,2% á árinu 2021, þar á eftir kemur Danmörk með 14%. Hlutfallið í Svíþjóð er hins vegar 19,7% þannig að nú er ég bara að horfa á skýrsluna. Síðan ætla ég ekki að fara að teygja þennan samanburð út í önnur Evrópuríki sem einnig er fjallað um í þessari ágætu Evrópuskýrslu. Það er margt hins vegar hægt að gera. Ég er hins vegar ekki með þessu að segja að það eigi ekki að taka á fátækt barna eins og kom fram í ítarlegri ræðu minni hér áðan. Það er líklega besta samfélagslega fjárfestingin sem við getum ráðist í að draga úr fátækt barna. Það getum við gert með margháttuðum hætti sem ég get komið að í síðara andsvari.