154. löggjafarþing — 15. fundur,  16. okt. 2023.

álit umboðsmanns Alþingis og traust almennings á stjórnvöldum.

[15:03]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegur forseti. Í áliti umboðsmanns Alþingis um hæfi fyrrverandi fjármálaráðherra í sölunni á Íslandsbanka kemur fram að hugtakið armslengd, sem stjórnarliðar hafa ítrekað vísað í til að fría fyrrverandi fjármálaráðherra undan ábyrgð gagnvart öllu því sem miður fór í framkvæmd á sölu eignarhluta ríkisins í Íslandsbanka, eigi sér ekki, með leyfi forseta: „… skírskotun til löggjafar eða annarra almennt viðurkenndra heimilda íslensks réttar.“ Armslengd er sem sagt ekki til í þessum lögum þrátt fyrir allt sem stjórnarliðar hafa sagt fram að þessu. Sömuleiðis kemur fram í áliti umboðsmanns að Bankasýsla ríkisins njóti ekki sjálfstæðis frá fjármálaráðherra líkt og hæstv. forsætisráðherra hélt m.a. ítrekað fram á opnum fundi með stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd í vor. Það sem þetta þýðir, virðulegi forseti, er að það var engin armslengd og það var ekkert sjálfstæði. Það sem þetta þýðir líka er að fjármálaráðherra brást stjórnunar- og eftirlitsskyldum sínum gagnvart Bankasýslu ríkisins. Þetta kemur líka fram í áliti umboðsmanns Alþingis. Spurning mín gagnvart hæstv. forsætisráðherra er einföld. Er það réttlætanleg, er það til þess fallið að styrkja traust almennings á stjórnmálunum að ráðherra sem brýtur gegn eftirlits- og stjórnunarheimildum sínum í einu ráðuneyti tölti bara yfir í annað og taki við stjórnartaumunum þar? Eru það ábyrg stjórnmál, virðulegi forseti?