154. löggjafarþing — 15. fundur,  16. okt. 2023.

aðgerðir og áætlanir stjórnvalda gegn fátækt.

[15:19]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Mig langar að byrja á því að nefna að í ítarlegri skýrslu, sem forsætisráðuneytið lét vinna um fátækt og hæstv. forsætisráðherra kynnti hér í síðustu viku og mikil og góð umræða átti sér stað um, kemur sem betur fer fram að ýmislegt hefur færst til betri vegar á síðustu 20 árum. Ég held að því beri að fagna. Við höfum hins vegar séð að það eru fleiri sem leita til hjálparsamtaka, líkt og hv. þingmaður nefndi. Ríkisstjórnin hefur verið að mæta þeim hópum sem minnst hafa í samfélaginu í þeirri dýrtíð sem núna gengur yfir, m.a. með því að ráðast í hækkanir á miðju ári tvö ár í röð í gegnum almannatryggingar, með því að hækka bætur til þeirra sem eru á leigumarkaði, láta barnabætur ná til stærri hóps og svona mætti áfram telja.

Þær aðgerðir sem verið er að grípa til til að draga úr fátækt — ég vil nú byrja á því að vitna aftur í þá ágætu umræðu sem var hér í síðustu viku. Forsætisráðherra greindi frá því að starf væri að fara í gang til að greina betur þær orsakir sem eru fyrir fátækt þannig að hægt yrði að taka með markvissari hætti á þeim málum. En auðvitað er ýmislegt sem hefur bæði verið gert á síðustu árum og er í farvatninu sem hér mætti nefna. Þar vil ég sérstaklega koma inn á heildarendurskoðun á málefnum örorkulífeyrisþega sem ég held að verði eitt stærsta skrefið okkar á þessu kjörtímabili til að draga úr fátækt fólks en fólk úr þessum hópi er því miður í hópi þeirra sem glíma við fátækt hér á landi og/eða eru langvarandi rétt ofan við lágtekjumörk.