154. löggjafarþing — 15. fundur,  16. okt. 2023.

barnabætur lágtekjufólks.

[15:30]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég ætla bara að endurtaka það sem ég sagði áðan af því að hv. þingmaður virðist ekki hafa hlustað af athygli. Nú erum við að ræða stöðu barnafjölskyldna á vettvangi þjóðhagsráðs og þar er barnabótakerfið til skoðunar. Ég held að allir séu sammála um að þær kerfisbreytingar sem ráðist var í í fyrra voru til bóta og þær miða að því að fleiri fjölskyldur eigi rétt á barnabótum en áður og þannig hefur kerfið virkað. Að sjálfsögðu þarf að fara yfir upphæðir kerfisins út frá verðlagsþróun í landinu, það blasir náttúrlega við. En það sem ég var að benda á í mínu svari, og það er það sem áhugi er á að ræða innan þjóðhagsráðs með aðilum vinnumarkaðarins og þar með talið verkalýðshreyfingarinnar sem hv. þingmaður vitnaði í, eru kjörin í heildarsamhengi og þau snúast ekki bara um barnabætur þó að þær séu mikilvægar. (Gripið fram í.) Þau snúast um það hvernig sveitarfélögin eru að standa undir sínum skyldum með því að tryggja leikskólavist fyrir börn, hvernig við erum að búa að börnum í skólum. Hér er rætt um tómstundastyrki. Það er sannarlega áhyggjuefni og þetta kallar á samtal milli ríkis og sveitarfélaga. (Forseti hringir.) Ég ætla að nefna eitt mál enn sem ég held að gæti verið mikilvægt til að búa betur að börnum (Forseti hringir.) sem búa við fátækt og það eru skólamáltíðir, ókeypis skólamáltíðir, (Forseti hringir.) og það væri ánægjulegt að sjá sveitarfélögin taka þessi mál og setja á borðið sem sín stóru málefni.