154. löggjafarþing — 15. fundur,  16. okt. 2023.

Þolmörk ferðaþjónustunnar.

[16:11]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. menningar- og viðskiptaráðherra fyrir að eiga þessa sérstöku umræðu með okkur um þolmörk ferðaþjónustunnar. Þetta er mikilvæg umræða sem ég tel að við eigum að taka, þótt fyrr hefði verið.

Mig langar að benda á í upphafi ræðu minnar að ég tel að ferðaþjónustan eins og hún er núna sé ekki efnahagslega sjálfbær þar sem hún hefur gríðarlega stór áhrif á framboð á íbúðarhúsnæði. Hún hefur það með því að taka mikið húsnæði undir ferðamennina sjálfa, með því taka mikið húsnæði undir aðflutta sem vinna í ferðaþjónustu en hún hefur líka áhrif á framboð á framleiðslutækjum til húsnæðisuppbyggingar sem eru í mjög miklum mæli upptekin í hótelbyggingum og fara þar af leiðandi ekki í að byggja upp það íbúðarhúsnæði sem við svo sárlega þurfum á að halda.

Ég saknaði þess að heyra ráðherra einnig svara til um þolmörk heilbrigðiskerfisins gagnvart ferðaþjónustunni. Við vitum það t.d. að í ár hafa 6% allra þeirra sem koma á bráðamóttökuna verið ferðamenn. Þá er ótalið álagið á heilsugæslur og spítala annars staðar á landinu að ónefndu álaginu á lögregluna og björgunarsveitirnar. Ég vil benda ráðherra á að við þurfum ekki að bíða eftir að sjö starfshópar ljúki sinni vinnu til að styrkja þá innviði okkar. Ég vil spyrja hvað stendur til að gera í þeim efnum, ekki seinna en strax, því að við sjáum ekki merki um það í fjárlagafrumvarpinu að nóg sé verið að gera til að bregðast við þessu gríðarlega álagi á innviði okkar vegna einmitt þessa atvinnugeira.

Að lokum langar mig að taka undir með hv. þm. Þórunni Sveinbjarnardóttur varðandi tekjuskiptinguna milli ríkis og sveitarfélaga. Mér finnst mjög mikilvægt að við tökum þetta til skoðunar, hvort t.d. hluti af virðisaukaskatti verði eftir í heimabyggð, eða þeim sem verður til af ferðaþjónustunni, þeim sem verður til af gistinóttum sem eru seldar þarna og hvort það megi ekki skoða að hækka virðisaukaskattinn á gistinóttum til að slaka mögulega líka aðeins á spennunni í hagkerfinu og lækka verðbólguna sem við eigum víst öll að vera að vinna gegn saman.