154. löggjafarþing — 15. fundur,  16. okt. 2023.

Þolmörk ferðaþjónustunnar.

[16:16]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Það er vissulega nauðsynlegt að ræða þolmörk ferðaþjónustu út frá ýmsum þáttum; efnahagsleg þolmörk, þolmörk náttúrunnar og þolmörk gagnvart íbúum þegar ferðaþjónustan gleypir staði eins og veruleikinn blasir t.d. við í Barcelona. En okkur Íslendingum hættir stundum til að tala alltaf eins og aðstæður á öllum þessum 103.000 km² sem við búum á séu nákvæmlega eins, og sömu áskoranir um allt land. Staðreyndin er hins vegar sú að á síðustu 120 árum höfum við breyst úr strjálbýlu sveitasamfélagi, með nokkrum fábrotnum þorpum og stórum sveitum, yfir í borgríki þar sem 70% íbúanna búa á mjög afmörkuðu svæði á suðvesturhorninu þar sem við bjóðum líka upp á að 98% allra ferðamanna sem hingað koma fari um. Þetta hefur auðvitað leitt til mikillar og alvarlegrar ofbeitar á mjög afmörkuðum svæðum landsins en síðan eru líka aðrir staðir sem eru vannýttir og væri hægt að nota miklu betur. Einmitt á þeim stöðum sjáum við hvað þetta er að mörgu leyti ákjósanleg grein, fyrirtækin ótrúlega fjölbreytt að stærð og gerð, þau eru oft sjálfsprottin og oft bara fjölskyldufyrirtæki. Þegar maður ferðast um landið er magnað að sjá hvað greinin hefur breytt þorpum, sumum niðurníddum, yfir í perlur þar sem hægt er að njóta menningar, matar og sjá fallega uppgerð hús. Við þurfum að leita leiða til þess að stjórna vextinum og hindra að hann verði of mikill og við þurfum að leita leiða til að fara í hófsama gjaldtöku. En fyrsta skrefið er auðvitað að stórauka möguleika Akureyrar og Egilsstaða til að taka á móti farþegum beint með flugi og svo eigum við auðvitað að jafna eldsneytisverð á milli flugvalla eins og væntanlega er gert í flestum siðmenntuðum ríkjum.