154. löggjafarþing — 15. fundur,  16. okt. 2023.

Þolmörk ferðaþjónustunnar.

[16:18]
Horfa

Diljá Mist Einarsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. málshefjanda fyrir framtakið og hæstv. ráðherra fyrir framsöguna. Vörumerkið er verðmætasta eignin í rekstri margra fyrirtækja. Það er þannig samofið ímynd fyrirtækisins sem leggur ofurkapp á að varðveita vörumerkið og þar með ímyndina. Vel rekin fyrirtæki fórna ekki langtímahagsmunum sínum fyrir skammtímagróða með því að gjaldfella vörumerkið.

Varkárni í uppbyggingu ferðaþjónustu er ekki síst hagsmunamál fyrir atvinnugreinina. Ef við yfirfyllum landið laskast vörumerkið Ísland. Landið verður ekki eins eftirsóknarvert og verið hefur. Þá tapa allir. Ýmis lönd hafa leitast við að takmarka fjöldaferðamennsku og til að mynda brugðist við ofgnótt ferðamanna á vinsælum áningarstöðum. Kannski ættum við að huga að fyrirbyggjandi ráðstöfunum. Hagsmunir þjóðarinnar og ferðaþjónustunnar fara nefnilega saman til framtíðar, ekki bara til skamms tíma.

Í dag fengum við fregnir af því að Kerið í Grímsnesi hefði skipt um eigendur en Kerið hefur verið í eigu Kerfélagsins í yfir tvo áratugi. Uppbygging og fyrirkomulag í kringum Kerið er frábært dæmi um einkaframtak við sjálfbæra náttúruvernd þar sem aðgangi hefur verið stýrt og ágóðinn nýttur til uppbyggingar og náttúruverndar. Þetta hefur verið gert í góðri samvinnu við heimamenn og mættu fleiri taka sér það til fyrirmyndar.

Ekki er hægt að ræða um þolmörk vegna ferðaþjónustu án þess að ræða heildarmyndina. Við uppbyggingu atvinnugreinar á borð við ferðaþjónustu sem krefst mikils erlends vinnuafls þurfum við að taka allt með í reikninginn. Erlendu vinnuafli fylgir uppbygging á húsnæði, skólum fyrir börn sem fylgja og jafnvel viðbótarkennsla. Álag eykst á heilbrigðiskerfið, bæði frá vinnuaflinu og ferðamönnunum. Svona mætti áfram telja og málshefjandi á hrós skilið fyrir að vekja athygli á þessu, enda einblínum við allt of oft á afmarkaða þætti hverju sinni.