154. löggjafarþing — 15. fundur,  16. okt. 2023.

Þolmörk ferðaþjónustunnar.

[16:27]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Herra forseti. Af umræðunni að dæma er þunginn fullmikill víða hér á landi á ferðamannastöðum. Ef við setjum þetta aðeins í samhengi, ekki að ég sé að leggja til að við reynum að ná því marki að þéttleiki gesta verði sambærilegur á þeim stað sem ég ætla að nefna nú, þá koma á Louvre-safnið í Frakklandi 7,5 milljónir gesta á hverju ári, 30.000 manns á dag. Louvre-safnið er eiginlega alveg nákvæmlega jafn stórt og Smáralindin, örlítið minna. Hefur okkur ekki eitthvað mistekist líka hvað varðar stýringu á þessum vinsælustu svæðum okkar? Við sjáum bara svæði síðan í hina röndina, Vestfirðina og mörg svæði á Norðurlandi og Austurlandi, sem hafa gríðarmikið rými og mikið svigrúm til að bæta við sig miklum fjölda gesta án þess að þar reyni á svæðin. Það var nefnt hér áðan að það væru 5.000 manns að koma á Þingvelli á dag. Ég trúi ekki öðru en að okkur geti tekist að bæta stýringuna. Þó að það sé mikilvægt að koma ferðamönnum víðar um landið en nú er orðið þá held ég að við verðum líka að skoða hvort okkur séu ekki að einhverju marki mislagðar hendur á þessum vinsælustu svæðum landsins þar sem upplifun ferðamanna og heimamanna sömuleiðis er að þrýstingurinn sé orðinn mikill. Ef við setjum það í samhengi við þessa stóru ferðamannastaði erlendis þá ætti þetta að vera viðráðanlegt verkefni í öllu samhengi. Ég held að það sé nauðsynlegt í þeirri vinnu sem fer fram inni í ráðuneytinu hjá hæstv. ráðherra að þetta atriði sé skoðað.