154. löggjafarþing — 15. fundur,  16. okt. 2023.

tímabundnar undanþágur frá skipulags- og byggingarlöggjöf og skipulagi.

314. mál
[16:51]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Nú nefndi hæstv. ráðherra spá sem er sú hæsta sem ég hef heyrt nefnda, sem sagt efri mörk spár sem hæstv. ráðherra nefndi áðan, 6.500 á þessu ári. Þannig að miðað við að það sé horft til þessara lausna þá finnst mér blasa við að það verði farið að teygja þessa lausn býsna víðar heldur en til opinberra eigna. Hvernig sér ráðherra fyrir sér að þetta samstarf verði útvíkkað? Verða einkaaðilar þá orðnir lykilaðilinn hvað þessa húsnæðisöflun varðar? Og svona til að átta sig á áhrifunum sem framkallast með þessu hefur nokkrum sinnum komið í umræðuna fyrrverandi sendiráð Bandaríkjanna uppi á Laufásvegi. Ég gef mér að hæstv. ráðherra þekki til þess máls í ljósi þess hversu oft það hefur komið upp í umræðunni. Mun þá t.d. slík eign strax detta inn sem lausn í þessu samhengi?