154. löggjafarþing — 15. fundur,  16. okt. 2023.

tímabundnar undanþágur frá skipulags- og byggingarlöggjöf og skipulagi.

314. mál
[16:52]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þar sem málefni skipulags- og byggingarmála og reyndar brunavarnir húsa heyra undir innviðaráðuneyti þá er mér falið að koma með þetta frumvarp til að búa til þennan farveg. Það er gert að ósk Vinnumálastofnunar og félags- og vinnumarkaðsráðherra eða -ráðuneytis til að hægt sé að grípa utan um vandann. Þannig að ég verð að viðurkenna, þótt ég þekki auðvitað af fjölmiðlaumræðu einstök mál, þá er það ekki af þeirri þekkingu sem ég myndi vilja geta fært úr ræðustól Alþingis um hvaða húsnæði kemur til greina. En ég ætla bara að gefa mér að það komi til greina ef þetta verður í fyrstu lotu kannski ríkishúsnæði sem gæti dekkað kannski þennan þúsundfjölda. Ef meira þyrfti til þá er ekkert útilokað að það komi til einhverra einkaaðila í næstu lotu. En það verður þó háð sem sagt beiðnum um undanþágu frá Vinnumálastofnun til skipulagsstofnunar og síðan þetta ferli sem er þó lagt hér til.

Varðandi síðan bara spána um 6.500. Þá eru þetta einfaldlega þær tölur sem voru birtar hér til grundvallar í vor þegar frumvarpið lagði af stað.