154. löggjafarþing — 15. fundur,  16. okt. 2023.

tímabundnar undanþágur frá skipulags- og byggingarlöggjöf og skipulagi.

314. mál
[16:54]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég átta mig alveg á tilgangi frumvarpsins og tilgangur minn er ekki að bregða fæti fyrir það. En það eru samt alveg varnaðarorð sem við þurfum að ræða. Við erum á tímum þar sem er fordæmalítill skortur á húsnæði og við þurfum að byggja mjög mikið og hraði felur alltaf í sér hættur. Það er sérstaklega flókið að taka húsnæði sem er hannað frá grunni til annarra nota og breyta í íbúðarhúsnæði og í ljósi þess að það er allt of lítið fjallað um gæði, óefnisleg gæði híbýla í byggingarreglugerð, þá hef ég áhyggjur af því að það sem er hugsað sem tímabundin úrræði muni á endanum að einhverju leyti varða veginn og gera undirmálsíbúðir hreinlega hluta af okkar veruleika.

Mig langaði að spyrja hæstv. ráðherra hvort það hafi ekkert verið rætt við gerð frumvarpsins að skrifa meira um gæði og hvað þessar íbúðir þurfi að innibera. Við getum ekki gleymt því að þarna er um að ræða fólk og fjölskyldur sem um tímabundið skeið a.m.k., er að fara að búa sér heimili á þessum stöðum og mér finnst ótækt að þær uppfylli ekki bara þær almennu gæðakröfur sem við gerum til húsnæðis. Svo ég tali nú ekki um hvað getur gerst, af því að það er auðvitað alveg ýjað að því að það sé hægt að framlengja þetta og það kæmi mér mjög á óvart ef eitthvað af þessum eignum yrði ekki varanlegar íbúðir til allrar framtíðar. Dæmin segja okkur sögu um slíkt þegar eignarrétturinn er ræddur.