154. löggjafarþing — 15. fundur,  16. okt. 2023.

tímabundnar undanþágur frá skipulags- og byggingarlöggjöf og skipulagi.

314. mál
[17:03]
Horfa

Birgir Þórarinsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Ég held að það sé rétt og nauðsynlegt, eins og hæstv. ráðherra sagði, að kalla eftir nýjustu upplýsingum hvað þetta varðar og að það verði þá horft til þess í nefndarvinnunni sem fram undan er. Ég held persónulega, herra forseti, að það sé ekki eins mikil þörf fyrir þetta frumvarp eins og var hér bara fyrir nokkrum mánuðum. Við komum til með að sjá heilmikla breytingu núna þegar niðurstaða kærunefndar útlendingamála í málefnum hælisleitenda frá Venesúela fer að hafa áhrif og við erum að sjá fram á mjög mikla brottvísun þeirra frá landinu sem hafa sótt um hæli frá Venesúela og eru hér í landinu, í ljósi þessa úrskurðar. Þannig að það er alveg ljóst í mínum huga að þörfin, sú brýna þörf sem hefur verið nefnd í sambandi við þetta frumvarp, er ekki eins brýn og nauðsynleg eins og hún var hér fyrir nokkrum mánuðum. En þetta þarf allt að ræða í nefndinni og það er mjög mikilvægt í mínum huga, herra forseti, að nefndin hafi allar nýjustu upplýsingarnar og allar spár fram í tímann eins og þær liggja fyrir núna.