154. löggjafarþing — 15. fundur,  16. okt. 2023.

tímabundnar undanþágur frá skipulags- og byggingarlöggjöf og skipulagi.

314. mál
[17:05]
Horfa

Orri Páll Jóhannsson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framsögu í þessu máli sem náði, eins og kom fram, ekki fram að ganga síðastliðið vor. Ég ætla að nota tækifærið og leyfa mér að vera ósammála hv. þm. Birgi Þórarinssyni um að við horfum ekki fram á þörf í þessum málaflokki og tel að ráðherrann hafi náð ágætlega utan um það. Við í umhverfis- og samgöngunefnd munum að sjálfsögðu fara ofan í þessar tölur. Þar get ég verið sammála hv. þm. Birgi Þórarinssyni um að nauðsynlegt er að leggja þær á borðið og hafa þær rétt eftir líka, sem hefur stundum vantað upp á í umræðunni. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra í ljósi þess úrlausnarefnis sem við stöndum frammi fyrir: Þekkir hann dæmi þess, af því að frumvarpið náði ekki fram að ganga síðastliðið vor, að einhvers staðar sé byrjuð vinna, sem tekur þá sannarlega tíma eins og hæstv. ráðherra benti á, við að breyta húsnæði en fylgja þá hefðbundnu ferli? Þekkir hæstv. ráðherra til þess að einhvers staðar sé vinna hafin við það?