154. löggjafarþing — 15. fundur,  16. okt. 2023.

tímabundnar undanþágur frá skipulags- og byggingarlöggjöf og skipulagi.

314. mál
[17:10]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Hér kynnir hæstv. ráðherra aftur fullkomna uppgjöf ríkisstjórnarinnar í að fást við hælisleitendamálin, því að í stað þess að bregðast við þeim gríðarlega umfangsmikla vanda sem hefur orðið til í tíð þessarar ríkisstjórnar er svarið alltaf að reyna að finna einhverjar reddingar og einhver ráð sem um leið eru til þess fallin að viðhalda vandanum og jafnvel stækka hann.

Hæstv. ráðherra las hér upp af talsverðu áhugaleysi tölurnar um gríðarlega fjölgun hælisleitenda á Íslandi og við höfum áður rætt það í þinginu, raunar margoft, og reynt að benda á hvernig þróunin er hér í samanburði við nágrannalöndin, til að mynda Norðurlöndin sem eru að fara í þveröfuga átt við íslensk stjórnvöld og reyna að ná tökum á uppruna vandans, á því hvernig við getum sem best hjálpað sem flestum þeirra sem eru í raunverulegri neyð. Hér er þessu öfugt farið, vandinn fær að vaxa og vaxa og einu úrræðin og viðbrögðin eru þau að grípa til einhvers konar neyðarráðstafana til að geta haldið áfram að velta vandanum á undan sér án þess að sjá fyrir sér hvernig hlutirnir eiga að leysast til framtíðar. Áður voru stjórnvöld búin að ryksuga upp leiguhúsnæði til að hýsa hælisleitendur, búið er að kaupa töluvert af húsnæði og fylla það og auðvitað hafa þau haft mjög veruleg áhrif á húsnæðismarkaðinn með þessum aðgerðum sínum. Svo var ákveðið að leigja heilt hótel — ég held að það sé bara eitt enn sem komið er en ætli þau verði ekki fleiri miðað við hvernig þessi ríkisstjórn gengur fram — leigja öll herbergin af heilu hóteli til næstu ára. Og nú kemur aftur þetta mál, að í ljósi þess að ekki verði við neitt ráðið og þeirra úrræða sem ríkisstjórnin hafði gripið til með öllum þeim áhrifum sem þau hafa haft eigi að heimila það að breyta iðnaðar- og skrifstofuhúsnæði, atvinnuhúsnæði, í íbúðir og dvalarstaði fyrir hælisleitendur.

En þótt málið komi hér fram í annað sinn er ekki búið að hugsa það lengra en svo að það tekst ekki að nefna nema eitt hugsanlegt dæmi, fæðingarheimilið við Eiríksgötu, á sama tíma og minnt er á að spáin geri ráð fyrir að það þurfi húsnæði fyrir 460 manns í hverjum mánuði næstu misserin — 460 manns á mánuði — að meira en 100 bætist við á viku, og þetta er lausnin: Að heimila það að breyta iðnaðar- og skrifstofuhúsnæði í dvalarstaði. Hvaða húsnæði? Fæðingarheimilið við Eiríksgötu t.d. Engin svör og engar hugmyndir um annað.

Nú liggur það fyrir að víða er atvinnuhúsnæði þegar notað sem íbúðarhúsnæði og oft í heimildarleysi með þeim hættum sem því fylgja. Um það leyti sem þessi umræða var að hefjast hérna áðan bárust nýjar fréttir af bruna í iðnaðarhúsnæði þar sem fólk var búsett við Funahöfða í Reykjavík og enn er verið að slökkva þann eld í þessum töluðu orðum. Þá stendur til að heimila notkun slíks húsnæðis til búsetu. Og jú, svo fylgdi sögunni að í framhaldinu kæmi líklega frumvarp um að leyfa búsetu í húsnæði sem hefur ekki staðist kröfur og er óheimilt að búa í, vegna þess að ríkisstjórnin hefur engin tök á fasteignamarkaðnum eða húsnæðismarkaðnum eða gerir sér grein fyrir eðli hans og heldur áfram að sýna glærukynningar þar sem alltaf fjölgar húsunum og íbúðunum sem á að byggja í framtíðinni, en á sama tíma er bara samdráttur. Þessi ríkisstjórn gerir sér í þessu máli eins og svo mörgum öðrum enga grein fyrir eðli vandans sem við er að eiga því að með óbreyttri stefnu mun ásóknin í hæli á Íslandi ekki minnka. Hvað á þá að gera, þegar búið er að fylla iðnaðar- og skrifstofuhúsnæði og hótel og ryksuga upp leigumarkaðinn? Það á bara einhvern veginn að vonast til þess að þetta leysist af sjálfu sér fyrir 1. júní 2025.

Niðurstaðan er þessi: Það á að heimila það að breyta iðnaðar- og skrifstofuhúsnæði í íbúðarhúsnæði. Ríkisstjórnin hefur ekki hugmynd um hvar þetta húsnæði er að finna, ekki hugmynd um hvað það muni kosta að breyta húsnæðinu og tekur fram að ekki sé gert ráð fyrir beinum kostnaði. En hvað ætli það kosti, eins og hv. þm. Logi Einarsson kom aðeins inn á áðan í andsvari, að gera ásættanlegar breytingar á því skrifstofu- og iðnaðarhúsnæði sem kann að finnast einhvers staðar og vera laust þannig að það verði hæft til búsetu? Það mun kosta töluvert. Þegar búið er að finna húsnæðið og breyta því, sem tekur augljóslega einhvern tíma, sérstaklega þegar ekki er búið að finna húsnæðið enn þá, hvað er þá eftir af tímabilinu þar sem á að heimila þetta? Kannski ár í mesta lagi. Er þá markmiðið virkilega það að ráðast í dýrar framkvæmdir til að breyta iðnaðar- og skrifstofuhúsnæði til að það nýtist í nokkra mánuði, kannski eitt ár? Eða gerir ríkisstjórnin sér kannski grein fyrir því, eða a.m.k. embættismennirnir sem undirbjuggu þetta, að þótt talað sé um tímabundið úrræði verði það miklu lengra og muni vara áfram, þótt það sé þægilegra að kynna þetta sem tímabundna ráðstöfun af því að það er erfiðara að segja hlutina eins og þeir eru og blasa við?

Nú höfum við horft upp á það að ásókn í hæli á Íslandi hafi orðið hlutfallslega tuttuguföld á við Danmörku og stundum hafa raunar fleiri einstaklingar komið til að sækja um hæli á Íslandi heldur en í Danmörku á síðustu misserum, margfalt miðað við öll hin Norðurlöndin. Viðbrögð ríkisstjórnarinnar hafa heldur orðið til að ýta undir þessa þróun á meðan, eins og ég nefndi áðan, hin Norðurlöndin eru að reyna að ná tökum á ástandinu. Hér eru engir tilburðir til þess að ná tökum á nokkrum einasta hlut heldur bara vonin um að einhvern veginn lagist allt og fólk hætti að koma. En ástæðan fyrir því að fólk kemur er að miklu leyti sú, eins og menn gangast við og stjórnvöld í, held ég, öllum Evrópulöndum og Evrópulögreglan, að eðli hælisleitendastraumsins er gjörbreytt frá því sem áður var. Evrópulögreglan telur, ef ég man rétt, að 95% þeirra sem koma til álfunnar til að sækja hér um hæli komi á vegum gengja og smyglara sem selja þessar ferðir, og ríkisstjórn Íslands hefur gert Ísland að eftirsóknarverðri söluvöru hvað þetta varðar. En það að opna fyrir slíka starfsemi gerir okkur verr í stakk búin til að hjálpa fólkinu sem er í mestri neyð, sem við gætum gert svo miklu betur ef haldið væri utan um þetta af einhverju viti. Í staðinn er Íslandi breytt í söluvöru en menn eru alltaf jafn hissa á hversu mikill straumurinn er, gera ekkert til að ná tökum á honum en ætla nú að fylla iðnaðar- og skrifstofuhúsnæði af hælisleitendum. Það er ekki hægt að leysa þetta mál nema líta á eðli vandans sem við er að eiga því að ef það er ekki gert þá getum við í fyrsta lagi augljóslega ekki leyst málið, eða þessi ríkisstjórn, og í öðru lagi gerir það okkur miklu erfiðara fyrir að hjálpa fólki í raunverulegri neyð.

Hvað þá með að bíða bara og vonast eftir því að efnahagsástandið í öðrum löndum batni því að þá komi færri? Það yrði nú reyndar löngu búið að fylla alla fermetra af öllum gerðum húsnæðis á Íslandi ef það væri planið, en jafnvel þótt efnahagsástandið í heiminum lagist og fátækari lönd verði ríkari, og við eigum tvímælalaust að reyna að aðstoða við það eftir fremsta megni, þá mun það ekki leysa vandann. Það mun fjölga hælisleitendum því að eftir því sem hagur ríkja vænkast upp að ákveðnu marki þá fjölgar þeim sem fara frá landinu og leita hælis annars staðar þar sem lífskjör eru betri, því að þá fyrst hafa nógu margir efni á því að fara annað, efni á að kaupa ferðir hjá aðilum sem selja ferðir til Íslands í þúsundatali og er áætlun upp á 6.500 á þessu ári, hvernig sem það fer. En vandinn leysist ekki nema litið sé á eðli hans og því hvet ég þessa ríkisstjórn til að velta þessum málaflokki fyrir sér í alvöru.

Það blasir við landsmönnum núna að stjórnvöld ráða ekki við málaflokkinn. Innviðirnir eru að bresta. Heilbrigðiskerfið — menn finna nú aldeilis fyrir þessu þar. Menntakerfið, eins og í Reykjanesbæ þar sem nú er kennt á yfir 30 tungumálum — hefur það engin áhrif á menntakerfið að öðru leyti? Jú, að sjálfsögðu. Löggæsla og allir málaflokkar, húsnæðismarkaðurinn, eins og höfum rætt, verða nú fyrir áhrifunum af þessu stjórnleysi í málaflokknum. Meira að segja hafa tveir dómsmálaráðherrar Sjálfstæðisflokksins kallað þetta stjórnleysi. Það gerði fyrrverandi fjármálaráðherra líka, notaði orðið stjórnleysi. En þessi ríkisstjórn virðist vera algjörlega ófær um að bregðast við stjórnleysinu sem hún hefur oft og tíðum jafnvel ýtt undir og mun ýta undir enn frekar nú með þessum aðgerðum.

Ég verð að segja alveg eins og er að ég hef svo oft orðið fyrir vonbrigðum með úrræðaleysi ríkisstjórnarinnar í þessum málaflokki að jafnvel þegar afleiðingarnar af þessu vanhugsaða plani koma í ljós þá efast ég um að það dugi til að fá þau til að líta á raunveruleikann sem blasir við og breyta um stefnu. En það er hins vegar önnur saga að það er ekkert víst að allar afleiðingarnar af þessu komi í ljós fyrr en einhvern tíma löngu eftir að þessi ríkisstjórn er farin frá, og það er kannski farið að einkenna stefnu hennar á lokasprettinum að kynna stórkostleg áform sem eiga að verða einhvern tíma á næstu árum eða áratugum og halda áfram að velta vandamálunum, sérstaklega stærstu vandamálunum, á undan sér án þess að taka á þeim.