154. löggjafarþing — 15. fundur,  16. okt. 2023.

tímabundnar undanþágur frá skipulags- og byggingarlöggjöf og skipulagi.

314. mál
[17:47]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir andsvarið. Ég get tekið heils hugar undir þetta. Það er nákvæmlega þetta sem ég var að reyna að koma orðum að. Ég tek undir það að mjög mikilvægt sé að ákveðin gæði séu fólgin í íbúðabyggð og íbúðum þar sem fólk býr. Hv. þingmaður kom inn á birtustig og að birta komi inn um glugga úr tveimur áttum. Mér varð hugsað til Nuuk þar sem maður horfir upp á langar raðir íbúðabyggðar sem reist var fyrir inúítana á sínum tíma og þeim öllum hrúgað inn í þær byggingar, sem var ekki góð lausn. Nú eru þeir aftur á móti búnir að byggja ofboðslega falleg fjölbýli í Nuuk sem uppfylla miklu betur þær gæðakröfur sem hægt er að gera í dag varðandi það hvernig fólki líður inni í byggingum. En það eru nákvæmlega þessir þættir sem maður heyrir of oft um. Ég er nýkomin úr kjördæmaviku þar sem var kvartað yfir þunglamalegu regluverki kringum byggingarstjóra, reglugerð og annað. Þessi dæmi sem hv. þingmaður nefndi voru býsna góð. Ég held að það hljóti að vera ástæða til þess að horft verði á þetta í ráðuneytinu. Hvernig getum við tryggt það að reglugerðir okkar séu í sem mestu samræmi við það sem þekkist annars staðar á Norðurlöndum? Ég átta mig á því að einstakar aðstæður kunna að vera hér vegna jarðskjálftahættu eða þess háttar sem horfa þarf til. Varðandi það sem hv. þingmaður nefndi um dyrakarma, þá þarf ég ekki á þessum aukasentímetrum að halda. Við hljótum að geta fundið leiðir til að einfalda þetta svo að við náum fram meiri hagkvæmni við að skipuleggja og reisa íbúðabyggð.