154. löggjafarþing — 15. fundur,  16. okt. 2023.

tímabundnar undanþágur frá skipulags- og byggingarlöggjöf og skipulagi.

314. mál
[17:51]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni aftur. Það er gott að við getum verið sammála um það að stóra málið er auðvitað að ná verðbólgu niður og þá munu vextir lækka. Það skiptir okkur öll máli, bæði heimili og fyrirtæki í landinu. Ég tek undir það sem hv. þingmaður kom inn á. Ég held að það sé hægt að sameinast um einhverjar breytingar án þess að draga úr gæðum eða öryggi íbúa. Svo er skipulagsferlið og það hvernig mismunandi aðilar eru dregnir inn í það sérstakt umræðuefni, en það skiptir mjög miklu máli. Eitt af því sem ég vil nefna í því samhengi er að það sem er sveitarfélögum mikilvægt þegar þau skipuleggja íbúðabyggð er aðgengi að grænum svæðum og útivistarsvæðum. Það er algjört lykilatriði að það sé gott aðgengi fyrir alla íbúa að slíkum svæðum. Það er eitt af því sem maður hefur áhyggjur af. Ég veit að það er einn af þeim punktum sem nefnt er í þessu frumvarpi að horfa skuli til. Allt skiptir þetta máli. Þar af leiðandi leggst ég að sjálfsögðu ekki gegn þessu frumvarpi en hvet nefndina til að skoða þær áætlanir sem lágu fyrir á sínum tíma og það hversu mikilvægt er að ráðast í þessar breytingar nú. Ekki síst vil ég beina þeim tilmælum til nefndarinnar og hæstv. ráðherra að regluverk kringum skipulagsmál, byggingarmál og mannvirkjalög verði skoðað almennt með hliðsjón af því sem við höfum rætt hér.