154. löggjafarþing — 15. fundur,  16. okt. 2023.

tímabundnar undanþágur frá skipulags- og byggingarlöggjöf og skipulagi.

314. mál
[18:06]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir málefnalega umræðu. Þó nokkrir þingmenn komu inn á sömu hluti svo að ég ákvað að koma í andsvar við hv. þingmann til að svara því. Til að mynda varðandi það sem hv. þingmaður endaði hér á, að vonandi eru breytingar í farvatninu svo að þörf fyrir stöðugt viðbótarhúsnæði verði minni. Það er mat Vinnumálastofnunar að kostnaður við að breyta fyrstu 1.000 íbúðunum verði 500–800 millj. kr. Svo verður það sífellt dýrara vegna þess að þá ertu kominn úr eignum ríkisins í aðrar íbúðir. Vonandi þurfum við ekki að fara lengra en í þessar 1.000 íbúðir. Það er margt sem bendir til að þörf verði á þessu eitthvað áfram. Ég er sammála því sem hér hefur verið nefnt um sveitarfélög og að mikilvægt sé að hlusta á raddir þeirra. Þess vegna tekur ein breyting í frumvarpinu frá því í vor til þess að gefinn er tveggja vikna viðbótarfrestur ef sveitarfélag óskar eftir því að fá viðbótarumsagnarfrest. Eftir sem áður verður synjunarvald hjá sveitarfélögum.

Svo langaði mig að nefna það að fjölmargir hér hafa komið inn á vandann við það að búa til tímabundið húsnæði og ég er algjörlega sammála því. Vandinn sem við stöndum frammi fyrir er sá að nú er fullt af íbúðum óleyfisíbúðir. Í þeim býr fólk. Við ætlum að bregðast við því seinna í vetur. Við erum hér komin í þann vanda að Vinnumálastofnun kemur fólki fyrir í búsetuúrræði. Þetta eru ekki íbúðir. Þetta er tímabundið búsetuúrræði. Þá tekur Vinnumálastofnun kannski óheppilegt húsnæði og óheppilega staði undir það. Kannski er þetta einfaldlega betri og skynsamlegri leið. Að minnsta kosti er verið að reyna að bregðast við með fyrirhyggju og undirbúningi í staðinn fyrir að sitja uppi með það að geta ekki brugðist við vandanum, eins og við sjáum á hinum almenna markaði þar sem fólk býr í óleyfi. Þar er ekkert eftirlit með öryggi, ekkert eftirlit með hollustuháttum og ekkert eftirlit með nokkrum sköpuðum hlut. Því miður höfum við séð hræðileg dæmi um það. (Forseti hringir.) Það er það sem við erum að reyna að bregðast við, bæði með því frumvarpi en einnig þessari aðferðafræði varðandi sífellt vaxandi fjölda innflytjenda.