154. löggjafarþing — 16. fundur,  17. okt. 2023.

Störf þingsins.

[13:50]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ofbeldi er sorgleg staðreynd. Ofbeldi hefur líklega fylgt manninum frá örófi alda og einhvern veginn hefði maður talið að það ofbeldi væri eitthvað sem við gætum útrýmt eða takmarkað verulega. Við höfum farið í alls konar aðgerðir gegn heimilisofbeldi og kynferðisofbeldi. Ekki hefur okkur tekist að uppræta ofbeldi en okkur hefur tekist að styðja betur við þolendur og aukið þannig umræðuna um mikilvægi þess að tekist sé á við ofbeldi með réttlátum hætti. En nú horfum við fram á ákveðið ástand og það er ofbeldi barna, jafnvel gagnvart öðrum börnum. Aldrei hafa fleiri börn á Íslandi verið í gæsluvarðhaldi og öll úrræði eru full. Þetta er fordæmalaust ástand sem við horfum upp á. Við horfum á vini okkar og frændur í Svíþjóð takast á við hryllilega ofbeldisöldu þar sem glæpamönnum hefur tekist að gera barnunga krakka hluta af klíkunni og láta þau fremja mikil ódæðisverk.

Ég held að það sé nauðsynlegt að við horfum til þess sem er að gerast í Svíþjóð og við heyrum núna lögregluna segja okkur þær fréttir að hún sjái ákveðnar vísbendingar um að þróunin sé hröð hér. Hingað til höfum við oft horft til þess að nokkur ár líði frá ákveðnum trendum sem eiga sér stað á Norðurlöndunum en nú, mögulega í gegnum samfélagsmiðla og tækni, sjáum við þetta gerast hraðar og hraðar. Ég veit að hæstv. ráðherrar, bæði dómsmálaráðherra og ráðherra barna- og menntamála, eru að vinna í þessum málum og ég vil vekja athygli á því í þessum sal að annars vegar þurfum við sem getum komið að stóru kerfunum okkar að huga að þessu en ekki síður er þetta auðvitað samfélagslegt mein, (Forseti hringir.) mein sem við þurfum öll að hjálpast að við að takast á við, mein sem fyrst og fremst snýst um það að börnum á Íslandi á að líða vel og það þarf að mæta hverju barni á þeim stað sem það er.