154. löggjafarþing — 16. fundur,  17. okt. 2023.

Slysasleppingar í sjókvíaeldi.

[14:22]
Horfa

Teitur Björn Einarsson (S):

Herra forseti. Ræðum endilega kjarna máls sem er sá hvort villtum laxastofnum stafi hætta af strokulöxum úr sjókvíaeldi. Svarið er á þá leið að hættan á erfðablöndun er hverfandi. Hin vísindalega niðurstaða um þessa hættu má draga saman á þá leið að það þarf síendurteknar sleppingar í miklu magni yfir langan tíma til þess að auka hættu á áhrifum á villta stofna — síendurteknar sleppingar í miklu magni yfir langan tíma. Og hver er skýringin? Jú, hún er sú að eldislax hefur einfaldlega mun minni hæfni — mun minni hæfni — til þess að fjölga sér í villtri náttúru en villtur lax. Þetta er líffræðin sem liggur fyrir. Eldisfiskar hafa ekki þá eiginleika í genamenginu til að komast af og afkvæmi slíkra fiska hafa að sama skapi nær enga möguleika til að lifa af, ná kynþroska og leita aftur upp í ár. Þetta er það sem við er að eiga. Þetta er áhættan, hún er til staðar en hún er hverfandi.

En þessu til viðbótar, herra forseti, þá er brugðist við þessari áhættu í þeirri löggjöf sem fiskeldið býr við. Það er innbyggt inn í löggjöfina stýritæki til að takast á við þetta. Og hvað á ég við? Jú, rétt að minna þingheim á það að í fyrsta lagi er það fjarlægð eldisstöðva frá ám. Í öðru lagi áhættumat erfðablöndunar. Í þriðja lagi er það kröfugerðin sem er gerð til búnaðar, tækni og framleiðsluferla; útsetningar seiða, ljósastýringar. Og í fjórða lagi er það vöktun og aðrar mótvægisaðgerðir. (Forseti hringir.) Þetta skiptir máli því að það er ekki rétt sem haldið er fram að villtum laxastofni (Forseti hringir.) stafi sú hætta af sjókvíaeldi, eins og þar er búið um hnútana, og látið er í veðri vaka.