154. löggjafarþing — 16. fundur,  17. okt. 2023.

Slysasleppingar í sjókvíaeldi.

[14:25]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Herra forseti. Það er best að ég vendi mínu kvæði í kross og steinhætti því sem ég ætlaði að segja því að eftir þessa framsögu hv. þm. Teits Björns Einarssonar þá get ég eiginlega ekki orða bundist. Ég ætla nú ekki að gleyma því að þakka hv. þm. Lilju Rannveigu Sigurgeirsdóttur fyrir að koma með þessa þörfu sérstöku umræðu hér inn og hæstv. ráðherra að vera með okkur hér í dag. Að ætla að bera það á borð á einhverjum tímapunkti að 80.000 eldislaxar sem eru kynþroska líti nú ekki við þessum villtu skvísum sem eru hér í lífríkinu er algerlega úr lausu lofti gripið. (Gripið fram í.) Það er eiginlega það sem við erum að tala um hér: Hvernig gengur þetta risafyrirtæki um lífríki okkar og auðlindina og hvernig þakka þeir fyrir þann umbúnað að fá í rauninni að vera með sjókvíaeldi? Við höfum öll séð hversu mikils virði það er fyrir brothættar byggðir fyrir vestan að hafa þetta sjókvíaeldi. En það breytir ekki þeirri staðreynd að viðurlögin hafa verið engin þegar þeir eru að missa frá sér eldislaxana, og 80.000 stykki — takk fyrir pent. Það er nú ekki eins og þetta séu einhverjar örfáar kynþroska gellur á ballinu. Þetta eru 80.000 laxar sem hafa verið að finnast allt norður í sveitir, norður í ám norður í landi. Það er ekki eins og þeir séu bara sveimandi um þarna einhvers staðar í kring. Núna hefur komið í ljós að aldrei hefur önnur eins lúsamengun verið í kringum kvíarnar eins og akkúrat nú. Það þarf, virðulegi forseti, að koma með alvöru viðurlög. Það þarf að láta þessa einstaklinga axla ábyrgð. Við vitum að þetta skiptir miklu máli fyrir búsetu og byggð fyrir vestan en það er líka annað sem er algjört kraftaverk og við höfum fengið að horfa upp á í Þorlákshöfn og stendur til að byggja upp til fyrirmyndar hér á Reykjanesi, en það er laxeldi á landi. Þar eru kvíarnar á landi og yrði mjög erfitt fyrir nokkurn kynþroska eldislax að sleppa út úr þeim og ætla að synda upp í einhverjar ár. Þar er þó a.m.k. ákveðin trygging.