154. löggjafarþing — 16. fundur,  17. okt. 2023.

Slysasleppingar í sjókvíaeldi.

[14:51]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Herra forseti. Við veiðiréttareigendur og bændur sem eru að fylgjast með þessari umræðu vil ég segja að við sem hér erum, alla vega sá sem hér stendur, heyrum áhyggjur ykkar og höfum skilning á þeim. En ef við horfum á málið í heild sinni, áhrifin sem eldið hefur haft á viðkvæmum svæðum eins og fyrir vestan og austur á fjörðum, þá stefnumörkun sem nú liggur fyrir hjá hæstv. matvælaráðherra og fleira í þá veru, þá blasir við að það sem við þurfum að leitast við að gera er að finna leið til að gera þetta eins vel og nokkur kostur er til að tryggja að hinum villta íslenska laxastofni standi ekki ógn af þeirri starfsemi sem stunduð er. Ekkert væri fjarri sjálfum mér en að leggja til eitthvað sem legði íslenska laxastofninn í hættu. En staðreyndin er sú að fiskeldið er komið til að vera. Við verðum að leita leiða til þess að við getum verið hér saman, stundað okkar starfsemi, hver á sínu svæði og með sínum hætti, þannig að vel gangi og varlega sé farið og við gerum þetta allt með sjálfbærum hætti. Við megum ekki gleyma því að eldisfyrirtækin hafa beinlínis verið að kalla eftir sterkari umgjörð. Eldisfyrirtækin og fulltrúar þeirra hafa ekkert farið í grafgötur með það að það er ýmislegt gagnrýnivert hér í regluumhverfinu og eftirlitinu. Það var sennilega enginn þingmaður sem gagnrýndi lagasetninguna 2019 meira en sá sem hér stendur, mér þóttu ýmsar gloppur vera í því ferli. Það breytir því ekki að við þurfum að einhenda okkur í það að gera umhverfið þannig að sem best sé og tryggja að við lærum af þessu slysi sem varð þarna í Patreksfirði því að það blasir við að það er ekki af neinum vilja sem slíkt gerist. Það er enginn fjárhagslegur hvati til slíks. (Forseti hringir.) Umræða um það að fyrirtæki sé að spara sér pening með því að tryggja ekki (Forseti hringir.) að fiskur sé ófrjór er byggð á misskilningi vegna þess að verð á fiskinum (Forseti hringir.) fellur ef fiskur er frjór. Þannig að við skulum taka umræðuna út frá staðreyndum og reyna að gera þetta eins vel og við getum fyrir alla aðila.