154. löggjafarþing — 16. fundur,  17. okt. 2023.

almenn hegningarlög.

229. mál
[15:10]
Horfa

Tómas A. Tómasson (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti, hv. þingheimur, kæru landsmenn. Ég þakka Loga Einarssyni fyrir þetta þarfa frumvarp sem hér hefur komið fram. Þannig er mál með vexti að sá sem hér stendur, hann umgengst gjarnan menn sem hafa setið inni og sitja inni þess vegna. Ég hef komist að þeirri niðurstöðu að oft og tíðum eru menn settir í steininn, eins og kallað er, fyrir smávægileg brot sem kannski eru til komin vegna þess að eitthvað fór úr böndunum. Þetta tengist oft einhvers konar neyslu einhverra vímuefna, áfengis eða annarra vímuefna, löglegra og ólöglegra, og viðkomandi þurfa miklu frekar á því að halda að fara í meðferð, langtímameðferð.

Það var viðtal við Arnþór nokkurn sem var nú þekktur hérna áður fyrr sem afbrotamaður en hann hefur snúið við blaðinu. Hann sagði í þessu ágæta viðtali að hann vildi sjá fleiri opin fangelsi og ég tek undir það. Ég held að í mörgum tilfellum mætti afvegaleiða þessa menn. Ef ég segi afvegaleiða þá á ég við að afvegaleiða þá frá þeirri braut sem þeir eru komnir á með því að setja þá í langtímameðferð sem væri kannski eitthvað skyld því sem verið er að gera í Krýsuvík. Þar er sex mánaða meðferð. Ég ímynda mér jafnvel að sex mánaða til heilsársmeðferð væri mjög nytsamleg fyrir svona unga menn sem þurfa bara á því að halda einhver sé góður við þá, að einhver skilji þá og að einhver veki athygli þeirra á því út á hvað lífið gengur raunverulega; ekki bara að leika sér, vera undir áhrifum og djamma og vera óheiðarlegur. Þess vegna hvet ég ykkur til að skoða þetta frumvarp mjög gaumgæfilega og bæta jafnvel við síðar meir opnum fangelsum.