154. löggjafarþing — 16. fundur,  17. okt. 2023.

föst starfsstöð þyrlu Landhelgisgæslunnar á Akureyri.

327. mál
[17:12]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Við í Samfylkingunni styðjum þetta mál enda er það í samræmi við þá stefnu og forgangsröðun sem við settum fram í heilbrigðismálum nú í haust. En þótt Samfylkingin styðji málið þá vakna spurningar eftir vikuna hvort ríkisstjórnin styðji málið og hvort hæstv. dómsmálaráðherra Sjálfstæðisflokksins gerir það, vegna þess að í óundirbúnum fyrirspurnatíma í síðustu viku spurði hv. þm. Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, um það hvort dómsmálaráðherra teldi ásættanlegt að vega að Landhelgisgæslunni eins og gert er í fjárlögum og hvort styrking sjúkraflutninga með þyrlu og áhöfn væru hugsanlega í uppnámi vegna þess hvernig fjárlögin líta út. Í stuttu máli svaraði hæstv. dómsmálaráðherra, með leyfi orðrétt: „Það liggur alveg fyrir að það þarf að koma aukið fjármagn eða það þyrfti að selja flugvél, skip eða þyrlu.“ Sem sagt, með öðrum orðum: Með óbreyttum fjárlögum gæti þyrlunum okkar fækkað en ekki fjölgað eins og þetta ágæta mál gerir ráð fyrir.

Ég spyr því: Er full alvara í þessu máli og hefur þingmaður trú á því að eitthvað breytist þannig milli umræða að hægt sé að fjármagna það? Eða styður hv. þingmaður kannski ekki fjárlögin eins og þau eru og mun hann greiða atkvæði gegn þeim ef það verður ekki tryggt fé sem vantar?