154. löggjafarþing — 16. fundur,  17. okt. 2023.

föst starfsstöð þyrlu Landhelgisgæslunnar á Akureyri.

327. mál
[17:16]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það stefnir í 600 millj. kr. halla hjá Landhelgisgæslunni. Hæstv. dómsmálaráðherra segir með leyfi: „Ég er þeirrar skoðunar að Landhelgisgæslan sé búin að gera allt sem í hennar valdi stendur til þess að ná aukinni hagræðingu …“ Sem sagt, það er búið að ganga eins langt og hægt er í hagræðingu. Samt birtast fjárlögin með 600 millj. kr. halla.

Hv. þingmaður kemur hér fram með mál sem kostar 700 millj. kr. á fyrsta ári og 500 millj. kr. eftir það. Ég er sammála honum um að það er brýnt. En jafnvel þó að við horfum fram í tímann og inn í fjármálaáætlun, finnst hv. þingmanni fjárlögin núna vera vísbending um að það eigi að spýta í lófana?

Nú er hv. þingmaður í fjárlaganefnd, eins og komið hefur fram, og því spyr ég bara beint út hvort hann styðji þá 2% aðhaldskröfu sem á að gera til Landhelgisgæslunnar, sem samkvæmt hæstv. dómsmálaráðherra er búin að gera allt sem hún getur til að hagræða, þ.e. Landhelgisgæslan. Það er auðvitað bara gott að fá það fram hér vegna þess að ég fór yfir ræður hv. þingmanns í umræðunni um fjárlög fyrr í haust og hann kom ekkert inn á þessi mál. Hann vék ekkert að áhyggjum vegna Landhelgisgæslunnar eða þeirrar aðhaldskröfu sem verið væri að gera þar eða þess niðurskurðar eða uppsafnaða halla. Ég þarf því að fá að vita það til þess að þetta sé trúverðugt áfram, hvort hv. þingmaður muni þá berja í borðið inni í fjárlaganefnd. Og ef það gerist ekki að þessar 600 milljónir komi inn til að halda óbreyttum rekstri og helst meiri peningar til þess að styðja við áform þingmannsins, mun hann þá ekki bara hafna því að samþykkja þetta fjárlagafrumvarp?