154. löggjafarþing — 16. fundur,  17. okt. 2023.

föst starfsstöð þyrlu Landhelgisgæslunnar á Akureyri.

327. mál
[17:29]
Horfa

Flm. (Njáll Trausti Friðbertsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég held líka að í umræðu í þinginu þurfi að koma fram að hæstv. dómsmálaráðherra, sem tók við embætti fyrir um þremur mánuðum síðan og er rétt að setja sig inn í málaflokkinn, hefur lýst eindregnum stuðningi við Landhelgisgæsluna og mikilvægi stofnunarinnar. Ég held að það efist enginn um það og mikilvægi hennar. Þegar er verið að skipuleggja hluti til lengri tíma og vinna með þá er mikilvægt, og ég kannski kom inn á það hér áðan, að leyfa málunum aðeins að anda. Það þarf að fjármagna þau og við notum fjármálaáætlun yfirleitt til þess hverju sinni, hún kemur fram í marsmánuði á hverju ári og við hugsum til fimm ára í henni. Hvaða skrefum er hægt að ná fram í gegnum hana á næstu misserum til þess að ná þessu markmiði? Svo það sé líka alveg á hreinu þá er, eins og kom kannski fram áðan, bent á í greinargerð málsins að tveir af flugstjórum Landhelgisgæslunnar á þyrlunum búa í Eyjafirði. Það sem þyrfti að gerast er að það þyrfti að tryggja aðra — sem sagt, viðkomandi þyrftu að manna þyrlurnar en það eru tveir flugstjórar nú þegar í Eyjafirði og búa þar. Það er gríðarlegur styrkur í því. En svo er bent á í málinu að það eru svo margar aðrar breytur sem við höfum í kringum Akureyrarflugvöll; innviði, flugvirkja, sjúkraflutningafólk, lækna af sjúkrahúsinu og aðra sem hafa reynslu af svona starfsemi. Það er grundvallaratriði. Þess vegna er verið að tala um Akureyri þó að það hafi komið einmitt fram í þessari grein sem er verið að vinna, eða rannsókn, að það er líka góð staðsetning landfræðilega og getur þjónustað flesta. En erum við ekki sammála um að það tekur tíma að koma svona hlutum áfram í gegnum hið háa Alþingi og fjárveitingar?